144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

fjármálastöðugleikaráð og kerfisáhættunefnd.

43. mál
[16:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Alþingi afgreiddi 16. maí sl. frumvarp um fjármálastöðugleikaráð og lögin tóku gildi 28. maí. Engu að síður var það svo að þegar leið að hausti, kominn var septembermánuður og ég hafði hvorki heyrt né séð neitt af fjármálastöðugleikaráði, ákvað ég að leggja fram fyrirspurn til að grennslast fyrir um það mál í upphafi þings. Síðan er vel að merkja að verða liðinn mánuður. Það ber að hafa í huga þegar við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra eigum nú loksins orðaskipti um þetta að síðan hafa að hluta til komið fram upplýsingar um það sem um er spurt, en það var og er einfaldlega hvort fjármálastöðugleikaráð hafi hafið störf og sett sér starfsreglur eins og því ber að gera skv. 3. gr. nefndra laga nr. 66/2014. Þá má auðvitað segja að svarið hafi komið að hluta til í fréttum 11. september þegar fréttist í fyrsta sinn opinberlega af fjármálastöðugleikaráði.

Ég spurði í öðru lagi um kerfisáhættunefnd og utanaðkomandi, óháðan sérfræðing í málefnum fjármálamarkaða eða hagfræði, sem ber að skipa í þá nefnd, hvort það hefði verið gert og sá aðili hafið störf.

Loks spurði ég í þriðja lagi hvenær þess væri að vænta að fjármálastöðugleikaráð gerði í fyrsta sinn opinberlega grein fyrir störfum sínum sbr. 10. gr. laga nr. 66/2014. Þannig er að fjármálastöðugleikaráð skal strax að loknum fundi, daginn eftir, gera opinbert meginefni fundar síns og birta fundargerð ráðsins innan mánaðar með þeirri undanþágu einni að ef einhverjar upplýsingar eru þar á ferð sem væru viðkvæmar beinlínis fyrir fjármálastöðugleika eða gætu skaðað þjóðarhagsmuni væri heimilt að halda þeim undan.

Þetta var efni fyrirspurnarinnar og ég vona að menn skilji að hún var sett fram af góðum hug til að ýta við málinu og grennslast fyrir um það. Fjármálastöðugleikaráð á að funda hið minnsta þrisvar á ári og kerfisáhættunefnd hið minnsta fjórum sinnum þannig að þegar liðið var á fjórða mánuð án þess að heyrst hefði af málinu þótti mér tímabært að forvitnast um það.

Að öðru leyti að því marki sem svör liggja þegar fyrir um það sem að er spurt, mínus þó kannski þetta með starfsreglurnar sem ég spyr um, væri fróðlegt að heyra frá hæstv. fjármálaráðherra hvernig starfið hafi þá farið af stað, hvaða vonir hann bindi við það og hvort það séu einhverjar sérstakar fréttir af því starfi sem hófst núna í september og hjá kerfisáhættunefnd fyrir nokkrum dögum. Hún kom í fyrsta sinn saman í byrjun þessa mánaðar.