145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

notkun dróna.

136. mál
[15:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um notkun dróna, eða flygilda eins og drónar eru stundum kallaðir á íslensku. Fyrirspurnin snýst um það hvort hæstv. ráðherra hyggst beita sér fyrir því að almenn löggjöf eða reglur verði settar um notkun dróna, hvort sem er hjá opinberum aðilum sem kunna að vilja nýta þessi tæki eða einkaaðilum. Ástæða fyrirspurnarinnar, sem ég lagði raunar fram á síðasta þingi en ekki gafst tækifæri til að svara þá, er í raun og veru sú að við sjáum dróna, eða flygildi, æ meira í almennri notkun í atvinnulífinu þar sem menn sjá jafnvel fyrir sér að flygildi verði farin að færa fólki flatbökur innan skamms í stað manna og við sjáum fyrir okkur að ýmiss konar önnur sendlastörf verði jafnvel unnin af drónum. Amazon-fyrirtækið hefur mikinn áhuga á að nýta sér þessa tækni og senda dróna á milli staða með pakka og annað slíkt.

Ég ætla svo sem ekki að fara að ræða hvaða áhrif þetta kann að hafa á atvinnulífið almennt, enda er það miklu stærri umræða. En það sem við höfum séð á Íslandi er að almenningur er farinn að nýta sér dróna. Við höfum til dæmis séð dróna sveimandi yfir á menningarnótt. Ég ræddi við aðila í morgun sem hafði samband við mig og sagði mér að fjórir slíkir hefðu verið á ferð á toppi Esjunnar þar sem hann var að ganga um helgina. Búið er að setja reglur af Þingvallanefnd um notkun dróna innan Þingvallaþjóðgarðar. Svo bárust af því fregnir að drónar hefðu verið á flugi fyrir utan gluggann á Seðlabankanum. Þetta hljómar allt eins og nokkurs konar vísindaskáldskapur en þetta er nú samt svona. Allmargir borgarar hafa haft samband við mig og bent á að kannski, eins og títt er þegar ný og spennandi tækni kemur sem hægt er að gera margt frábært með, sé verið að nýta hana í alls kyns hluti. Drónar hafa sést á svölum þar sem fólk liggur í sólbaði eða fyrir utan glugga fólks og það er verið að taka myndir af fólki og ganga þar með þvert á friðhelgi einkalífsins.

Ég ítreka að þetta er spennandi tækni sem mun væntanlega hafa mikil áhrif og breyta samfélagsháttum okkar, enda eru önnur ríki mörg hver farin að setja reglur um þetta. Frakkar eru kannski þekktastir fyrir mjög umfangsmikla reglugerð, enda eru drónar t.d. mikið notaðir í atvinnulífinu í Frakklandi. Ég nefni eitt dæmi: Vínbændur nýta dróna til að hafa eftirlit með vínökrunum. Þar eru mjög skýrar reglur. Það eru reglur í Þýskalandi þar sem er í raun og veru hægt að finna bæði hvaða reglur eigi að gilda um hið opinbera og um einkaaðila og atvinnulífið. Nú eru Svíar búnir að setja sér reglur. Í Frakklandi eru þessar reglur allumfangsmiklar, enda eru þeir þekktir reglugerðarmenn og setja til dæmis ákveðin skilyrði um það hver megi fljúga flygildum. Það þarf ákveðið hæfi til þess, a.m.k. ef þau eru yfir ákveðinni stærð. Víða má sjá í þessum reglum að ekki er gert ráð fyrir að flygildi megi fljúga yfir miklum mannfjölda. Víða eru sett takmörk á tiltekna náttúruperlur eða viðkvæm (Forseti hringir.) svæði, að það sé ekki eðlilegt að hafa flygildi í almennu (Forseti hringir.) flugi nema á tilteknum tímum.

Þessi tími er allt of stuttur til að fara yfir þetta umfangsmikla mál. Virðulegi forseti, (Forseti hringir.) ég spyr hæstv. ráðherra: Eigum við von á slíkri reglusetningu hér á landi?