154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[10:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Vönduð skref og leikrit — þetta eru allt orð sem Sjálfstæðismenn segja rosalega oft en þegar maður skoðar svona á bak við orðin er engin merking þar á bak við. Ég meina, við erum í þessari aðstöðu einmitt af því að það voru ekki tekin vönduð skref í sölu Íslandsbanka. Það er ástæðan fyrir því að við erum í þessari stöðu. Það er mjög áhugavert að þessu sé þá lýst sem einhverjum vönduðum skrefum sem þurfi að huga vel að og svoleiðis. Og leikrit — Sjálfstæðismenn nota iðulega einhvers konar lýsingarorð yfir aðra, gera öðrum upp skoðanir (Gripið fram í.) út af því sem þau sjálf myndu gera. Það er þannig sem þau hanna sína stjórnmálaumræðu ítrekað, (Gripið fram í.) gera ráð fyrir því að aðrir hagi sér eins og þau. Bara svo að fólk átti sig á því hvað er að gerast hérna þá eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins að koma hérna upp í hrönnum til að verja (Forseti hringir.) það sem augljóslega var niðurstaða (Forseti hringir.) með löngum fyrirvara: Lögbrot. (Gripið fram í.)