145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[19:21]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil sem formaður hv. utanríkismálanefndar, sem gat ekki verið viðstödd umræðuna í síðustu viku, tala örstutt. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið, ég held að flest hafi komið fram sem mikilvægt er og auðvitað kristallast ólík sjónarmið í því. Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri og þakka hv. utanríkismálanefnd og öllum fulltrúum þar fyrir mjög góða vinnu í sambandi við þessa tillögu. Það var mikið um hana fjallað og þurfti margt að fara yfir þannig að við fengum á fund okkar marga gesti. Margir höfðu á málinu sterkar skoðanir og algerlega andstæðir pólar mættust þar, eins og var við að búast. En umræðan gekk vel og ég vil þakka nefndarmönnum fyrir það.

Meginþemað í þeim samningi sem er til umfjöllunar og það verkefni sem skiptir máli er að mínu mati, og meiri hluta hv. utanríkismálanefndar sem öll skrifar undir nefndarálitið fyrir utan fulltrúa Vinstri grænna, að við fáum fleiri tækifæri, og mér finnst það aðeins gleymast í umræðunni, sem samfélag, matvælaiðnaðurinn í þessu landi fær fleiri tækifæri til að flytja út og koma á markað afurðum sínum. Það skiptir líka máli. Í öllum samningum sem gerðir eru, hvort sem þeir eru á milli manna eða ríkja, gefur maður og tekur. Þarna fáum tækifæri til að koma okkar góðu vöru á framfæri annars staðar. Mér finnst það skipta miklu máli. Okkur fannst það vega þungt í afstöðu okkar, sem er sú að samþykkja beri þennan samning. Við getum tekist á um hvort í því felist raunveruleg tækifæri til góðs eða ills, tækifæri til að flytja inn fleiri afurðir. Mín skoðun er sú, og endurspeglast í því nefndaráliti sem liggur frammi, að það sé til góðs. Það sé ekki aðeins til góðs fyrir íslenska neytendur, ekki aðeins fyrir íslenskan matvælaiðnað, ekki aðeins fyrir íslenska bændur heldur fyrir íslenskt samfélag í heild sinni. Mér finnst menn líka hafa skautað fram hjá því að ákveðnir aðilar sem gáfu umsagnir, eins og ASÍ, heildarsamtökin, gáfu jákvæða umsögn og töldu mikilvægt að samningurinn yrði samþykktur með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Hið sama gerðu Neytendasamtökin. Þetta vóg auðvitað mjög þungt í allri umræðu innan utanríkismálanefndar. Ég tel því að samningurinn sé til góðs.

Það má auðvitað fara yfir og ræða, og við ræddum það lengi á fundum okkar, hvernig þessi skipti hefðu nákvæmlega átt að eiga sér stað, hvort það var nægilegt samráð haft í ferlinu o.s.frv. Ég ætla ekki að fella neina dóma um það en fyrst og síðast tel ég, eins og meiri hluti nefndarinnar, að þarna sé á ferðinni góður samningur. Ég vil líka taka undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni og það er svolítið sérkennilegt að ég, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, skuli vera honum hjartanlega sammála og hefði í raun og veru getað flutt sömu ræðu og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar gerði. Það kemur mér á óvart, en minnir kannski á þá skurðpunkta sem eru í íslenskum stjórnmálum, að hlusta á rök félaga okkar í Vinstri grænum, hvernig þeir bera fram málið og hvaða afstöðu þeir kjósa að taka í því. Ég ætla ekkert að lesa frekar í það en fyrir mér er það tal um fortíð, tal um eitthvað sem var, um hættur sem eru ekki raunverulega til staðar og einkennist að mínu mati af skorti á trausti gagnvart neytendum sjálfum sem geta valið, eiga að velja og við eigum að treysta. Ég held líka að íslenskur landbúnaður sé alveg orðinn fullvaxta þegar kemur að þessu. Ég held að íslenskur landbúnaður geti alveg tekist á við þær ógnir sem í þessu felast. Ég held að íslenskur landbúnaður sé hreinn, standist samkeppni við það allra besta, sé á þeim tímapunkti í sínum þroska, getum við sagt, að aldrei hafi verið önnur eins eftirspurn eftir slíkum vörum. Ég held að öll samfélög í heiminum séu að þróast í átt til þess. Ég held því að við ættum að taka því fagnandi að hann fái aukna samkeppni, fái að spreyta sig annars staðar og verði þá, eins og flest okkar teljum örugglega, verðmeiri og verðmætari en afurðir sem ekki eru eins heilnæmar og við teljum íslenskan landbúnað vera.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til að árétta að þetta fellur saman við búvörusamninginn. Við vitum það öll. Það var rætt um það, því að það hefur komið nokkuð til umræðu í salnum í kvöld, hvort þetta eigi að vera rætt á sama tíma og í samhengi við búvörusamninginn. Það gerðu allir ráð fyrir því. Vinnan tók mið af því. Ég tel að það sé ágætlega farsælt. Ég held t.d. að ég hefði átt mjög erfitt með, og á reyndar á mjög erfitt með og mun að öllum líkindum ekki styðja þann búvörusamning sem liggur fyrir og hef áður sagt það, að vinna með það mál án þess að þetta væri hliðarviðfangsefni. Ég held að það séu mörg kerfi á Íslandi og ég hef lengi verið þeirrar skoðunar í íslenskum stjórnmálum að mörg kerfi á Íslandi séu löngu gengin sér til húðar, þurfi verulegrar ígrundunar við og þurfi verulegs hugrekkis við til að menn þori að takast á við nýjar áskoranir og vinna öðruvísi með þær. Ég held að búvörusamningurinn og landbúnaðarmál almennt séu gott dæmi um það. Það hvernig við nálgumst landbúnaðarmál er að mínu mati — og ég ber fulla virðingu fyrir skoðunum annarra en ég frábið mér, eins og stundum er gert í þessari umræðu, að það að til staðar séu í huga manns efasemdir um núverandi landbúnaðarkerfi feli í sér andstöðu við íslenska matvælaframleiðslu eða bændur. Ég tel þvert á móti að þeir séu mjög vel hæfir og færir en mín skoðun er sú að við séum búin að njörva þetta kerfi niður í endalausar reglur, endalausar reglugerðir, endalaus formsatriði um hluti sem síðan kæfa það sem við síst viljum kæfa. Ég vildi óska að þingheimur hefði, ég hef reyndar ekki séð það undanfarna áratugi og skal viðurkenna að ég er ekki viss um að það gerist á næstu áratugum, sameiginlega hugrekki til að takast á við það kerfi, eins og svo mörg önnur, með það að leiðarljósi að íslenskur landbúnaður er frábær atvinnugrein, getur gert miklu betri og meiri hluti en við veitum honum tækifæri til. Þessi samningur er að mínu mati skref í rétta átt hvað það varðar. Hann er til góðs fyrir neytendur, matvælaiðnaðinn, bændur og alla sem að þessu koma, til góðs fyrir íslenskt samfélag. En fyrst og síðast verðum við að treysta þessum geira og treysta neytendum. Þess vegna fagna ég því að um þetta mál náðist eins góð samstaða og raun ber vitni á vettvangi utanríkismálanefndar.