139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[11:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem við erum að afgreiða á rætur sínar nokkur ár aftur í tímann. Það er rétt sem fram hefur komið að hér hafa um nokkurt árabil verið flutt þingmannafrumvörp, m.a. af hálfu hv. þáverandi þingmanns, Kolbrúnar Halldórsdóttur o.fl., sem urðu til að koma þessu máli á dagskrá. Árið 2008 var málið tekið til gagngerrar umræðu í allsherjarnefnd og í lok þeirrar vinnu var hv. dómsmálaráðuneyti, þáverandi, falið að vinna tillögur sem skila sér í því frumvarpi sem hér lítur dagsins ljós. Þær eru vel unnar og vel útfærðar og allsherjarnefnd hefur náð góðri samstöðu um meðferð þeirra og er full ástæða til að fagna þeirri lagasetningu sem nú er að verða að veruleika á þessu sviði.