145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

byggðamál.

[11:25]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er mikilvægt hagsmunamál allra, bæði okkar sem búum í Reykjavík og annarra úti á landi, að landið sé byggt. Að við hlúum að hinum dreifðu byggðum sem og að við hlúum að höfuðborginni og munum að við erum ein þjóð í einu landi. Stundum finnst mér þessi umræða vera einangruð við þá sem eru utan af landi. Þetta á auðvitað að vera hagsmunamál okkar allra, að ræða hvernig við getum sem best staðið að því að halda landinu í byggð og tryggt öllum, óháð búsetu, góð og viðunandi lífsskilyrði.

Ég held að það sé rétt, og get tekið undir með þeim hv. þingmönnum sem það hafa nefnt, að það er auðvitað mikilvægt hlutverk ríkisins þegar kemur að byggðastefnu að tryggja innviði, hvort sem það er í formi samgangna, fjarskipta eða menntunar. Þetta eru mál sem fólk úti um allt land sem og í höfuðborginni leggur gríðarlega áherslu á. Ég held hins vegar að við verðum líka að átta okkur á því að þróunin hér á landi, þó að mörgum finnist hún ansi ýkt, er ekki einskorðuð við Ísland. Um allan heim er ungt fólk sérstaklega að flytja úr hinum dreifðu byggðum í þéttbýli. Það er umhugsunarefni sem við þurfum að taka mið af. Fólk er þá að sækja tiltekna hluti þangað sem ekki bara snúast um atvinnu eða innviði heldur er það að sækja í eitthvað annað. Það heyrir maður svo víða. Fólk vill velja sér búsetu út frá tilteknum kostum sem gera staði eftirsóknarverða.

Ég held að mjög mikilvægt sé fyrir stjórnvöld sem fara með byggðastefnu, og ég tek undir með hæstv. ráðherra, að hlusta eftir röddunum úti um land. Ég nefni sérstaklega sóknaráætlanirnar og þjóðfundina sem voru haldnir í öllum landshlutum. Við þurfum að valdefla byggðirnar til þess að taka stjórn á því hvert þær vilja sjálfar fara. Það var eftirtektarvert á þeim fundum að þar voru t.d. mennta- og menningarmál yfirleitt í efsta sæti. Það er það sem skiptir máli þegar maður býr einhvers staðar. Ekki bara að það sé vinnustaður, að vegurinn virki, heldur líka þetta inntak í lífinu. Ég held að það sé mjög mikilvægt ef við ætlum að byggja hér byggðastefnu til framtíðar að taka mið af því að fólk (Forseti hringir.) í samtímanum er hreyfanlegt. Það býr ekki á sama stað alla ævi. Það er liðin tíð.(Forseti hringir.) Þess vegna skiptir svo miklu máli að við hlustum eftir röddum fólks og hugum að þessu inntaki í tilverunni sem skiptir svo miklu máli.