154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

staða og úrvinnsla mála hjá stjórnvöldum.

[15:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þegar Bjarni Benediktsson vék úr embætti fjármálaráðherra lýstu bæði þingflokksformaður Vinstri grænna og hæstv. forsætisráðherra því yfir að þetta hefði verið rétt ákvörðun og fögnuðu henni. Þá sér hver maður að það hefur væntanlega ekki verið að vænta mikils stuðnings úr herbúðum Vinstri grænna ef fyrrverandi fjármálaráðherra hefði tekið aðra ákvörðun. Svo ímynduðu einhverjir sér — ég skal viðurkenna, herra forseti, að ég var einn af þeim — að þessu myndi fylgja einhver svona frekari endurskipulagning í ríkisstjórninni og menn myndu vilja nota tækifærið til þess að skerpa á áherslum sínum. En það eina sem við sáum var haustferð ríkisstjórnarinnar á Þingvelli sem var tilkynnt sem svo að þar ætti að hrista menn saman og jú, kannski skerpa á áherslum en aðallega ná samstöðu um í hvað stefndi. Og hvað kom út úr þessari ferð? Það kom reyndar fram áður en ferðin hófst að þar yrðu ekki rædd ráðherramál, það væri fyrir aðra að finna út úr því, en það átti þó að ræða aðeins um verðbólguna og annað ágreiningsmál; útlendingamálin. Að ferðinni lokinni kom á daginn að útlendingamálin hefðu ekki verið nefnd og hún væntanlega ekki snúist um annað en að hrista menn saman og stilla saman strengi í þeim skilningi að allir ættu að segja eftirfarandi, að þetta hefði verið rosalega gaman og allir væru vinir. Og jú, svo mættu hæstv. ráðherrar á blaðamannafund og sögðust hafa komist að þeirri niðurstöðu að ja, þeir yrðu eiginlega bara að starfa saman áfram, það væri ekki um annað að ræða. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig verður með útlendingamálin? Verður bara stefna Vinstri grænna ofan á þar, til að mynda nýjustu ákvarðanir hæstv. félagsmálaráðherra? Og er eitthvert mál, er eitt ágreiningsmál ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) sem er búið að leysa núna? Getur hæstv. forsætisráðherra nefnt eitt slíkt mál?