145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:01]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Hér er gengið skemur en í tillögunni sem var felld áðan. Hér er m.a. verið að heimila að halda áfram stuðningi við sum dýr þó svo að sýnt sé fram á dýraníð gagnvart öðrum dýrum á sama búi. Mér finnst þetta óskiljanlegt. Dýraníð er eitthvað sem á ekki að líðast. Auðvitað eigum við að hafa sterkar heimildir og stofnanir að hafa skyldu til að nýta sterkar heimildir til að koma í veg fyrir dýraníð. Dýraníð er ekki eitthvað sem bara gerist og er síðan brugðist við eftir á svona óvart eins og við hverjum öðrum sjúkdómi. Dýraníð er hægt að koma í veg fyrir með því að þeir sem haldi dýr séu meðvitaðir um að gera það vel. Það er með ákveðinni sorg í hjarta að ég segi já við þessari tillögu. Hún er mikil bót frá því sem nú er en mikið hefði verið betra og betra afspurnar fyrir þingið hefðum við samþykkt tillöguna sem var felld hérna áðan.