145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[16:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk og nefndarálit hv. þingnefndar utanríkismála, álit sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór í gær mjög vel og glögglega yfir. Í fyrri umr. um málið fór ég yfir þörf, forsendur og nauðsyn þess að við klárum loks að fullgilda samninginn enda er, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson orðaði það, stjórnvöldum til vansa hversu langan tíma það hefur tekið. Í greinargerð með sjálfri tillögunni er allítarlega farið yfir þá vinnu sem hefur átt sér stað eða er í burðarliðnum og sem er nauðsynleg til að við klárum þetta mál.

Þetta er ekki endastöð. Eins og ég nefndi þá í ræðu um þingsályktunartillöguna er þetta stöðug vegferð þar sem við tryggjum sjálfsögð mannréttindi og erum á vaktinni með það. Ég vil vitna orðrétt í nefndarálit hv. utanríkismálanefndar, með leyfi forseta:

„Samningurinn viðurkennir mannréttindi fatlaðs fólks, sem eru þau sömu og annarra, en staðfestir jafnframt rétt fatlaðs fólks til að njóta þessara réttinda. Markmið samningsins er að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra …“

Kjarninn í þessu öllu saman er að allir hafi jöfn tækifæri og aðgengi og má í því samhengi vitna til 9. gr. samningsins sjálfs. Ég kom jafnframt inn á það í umræðu um tillöguna að ég hef farið fyrir starfshópi sem hæstv. velferðarráðherra skipaði í ársbyrjun 2014 sem hefur haft það verkefni að endurskoða lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og lög um málefni fatlaðs fólks. Ég fór þá í ræðu yfir störf nefndarinnar og jafnframt er í greinargerð með tillögunni komið inn á það. Staðan nú er sú að hópurinn lagði drög að frumvörpum ásamt greinargerð, frumvörpum sem fóru í umsagnarferli í ráðuneytinu í sumar. Hefur starfshópurinn á þeim tíma fengið mjög gagnlegar ábendingar sem verið er að taka tillit til og niðurstöðu er að vænta sem birtist í frumvarpi til nýrra laga um málefni fatlaðs fólks. Samningurinn hefur allan tímann verið hafður til hliðsjónar og svo breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna því til samræmis. Aukinheldur er auðvitað tekið tillit til þeirra samfélagslegu breytinga sem hafa orðið en eins og við þekkjum hefur málaflokkurinn yfirfærst frá ríki til sveitarfélaga og ítarleg skýrsla um fjárhagslegt og faglegt endurmat átt sér stað, nú síðast í desember. Þá er auðvitað notendastýrð persónuleg aðstoð form sem við höfum verið að þróa og vinna að á liðnum árum og sérstakur starfshópur hefur unnið með það mál og við í endurskoðunarstarfshópnum höfum átt samvinnu og samráð við hann. Það er form sem hentar mörgum, kannski ekki öllum, en er sannarlega til þess fallið að mæta réttindum margra til að stýra sínu eigin lífi.

Allt að einu snýr kjarni samningsins að jafnrétti sem er tryggt í 65. gr. stjórnarskrár Íslands. Ég vona að við getum sameiginlega staðið að því að varða þessa vegferð með yfirlýsingu sem í þessum mannréttindasamningi felst. Ég fagna því hvernig samstaðan um það birtist á Alþingi um þetta efni og hvet beinlínis til þess og þakka um leið snörp viðbrögð og vinnu hv. utanríkismálanefndar í úrvinnslu málsins.

Í lokin legg ég áherslu á það sem kemur fram í nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar, þ.e. hvatningu til stjórnvalda um að hafa hraðar hendur með undirbúning fullgildingar gagna svo ljúka megi ferlinu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna svo hæstv. utanríkisráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir geti klárað þetta ferli.

Hér hefur þó nokkuð verið komið inn á breytingartillögu hv. þm. Páls Vals Björnssonar um valfrjálsa bókun. Um það vil ég segja að í nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar kemur fram að standi vilji Alþingis til að fullgilda hana þurfi aðra ákvörðun þar um og ég trúi því að hv. utanríkismálanefnd vilji ígrunda það mál og færa sterk rök fyrir því, a.m.k. yfirfara málið áður en ákvörðun verður tekin eða þetta lagt fyrir þingið í atkvæðagreiðslu.