139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kemur inn á nokkra af þeim þáttum sem ég nefndi í ræðu minni er varða efnahagsstjórnina sjálfa og hvort þetta allt beri þess merki að ríkisstjórnin hafi gefist upp í stjórn efnahagsmála. Að einhverju leyti er það uppgjöf. Það kom kannski fram í síðustu orðum hv. þingmanns hvað er helst að. Reyndar hefur það smátt og smátt komið í ljós, og var notað áður en gengið var til kosninga, að ef minnihlutastjórnin fengi meiri hluta þá væri hennar helsta verkefni að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru í kjölfarið, og þar með væri búið að leysa efnahagsvandamálin. Það var plan A.

Ég lít frekar svo á að ríkisstjórnin neiti að horfast í augu við að það plan gengur ekki upp. Það var kannski alltaf dálítið sérkennilegt en við þær aðstæður sem voru veturinn 2008–2009 og vorið 2009 horfðu menn hálfvonleysislega til framtíðarinnar og óttaslegnir og leituðu að haldreipi. Síðan hefur svo margt annað gerst, bæði innan lands sem og í alþjóðaefnahagsmálum, ekki hvað síst í Evrópu og hvað varðar evruna. Þessi áætlun er vonlaus en ríkisstjórnin neitar að horfast í augu við það. Kannski er það vegna þess að þeir telja að ef þeir fari að rugga þeim bát sé ríkisstjórnarsamstarfið búið, að það hangi saman á því einu að Samfylkingin fái að sækja um aðild að Evrópusambandinu og Vinstri grænir fái að koma fram með öfgastefnu sína með því að vera á móti atvinnuuppbyggingu og eitt og annað í þeim dúr. Þetta eru bara vangaveltur, við getum ekki fullyrt neitt um það.