150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[11:33]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er alveg ljóst að þetta miðhálendisþjóðgarðsmál varðar hagsmuni sveitarfélaga mjög mikið. Hagsmunirnir eru líka mismunandi eftir því hvar í kringum þennan fyrirhugaða þjóðgarð sveitarfélögin eru, þannig að mikilvægt er að tryggja að þau hafi öll aðkomu að málinu, en ekki endilega í gegnum einn eða tvo kanala þótt góðir séu í nefndinni. Þess vegna spurði ég um tengslin við þetta mál.

Mig langar í seinni umferð að velta aðeins fyrir mér þessu með verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga um tilraunaverkefnið sem nefnt er hérna sérstaklega. Eins mikilvægt og það er að við höfum þessa verkaskiptingu skýra fyrir íbúa, ekki síst í menntamálum og heilbrigðismálum, fara þau oftar en ekki haltrandi af stað, ekki síst vegna þess að fyrirkomulag fjármögnunar er oft og tíðum ekki nægilega skýrt og a.m.k. ekki þannig úr garði gert að verkefnin takist einfaldlega eins og best verður á kosið.

Ég velti fyrir mér hvort ráðherra hafi eitthvað skýrara um það að segja en að stefnt sé að tilraunaverkefni á sviði breyttrar verkaskiptingar. (Forseti hringir.) Hefur ráðherra eitthvað sérstakt í huga? Ég spyr sérstaklega: Verður tryggt fjármagn til að slíkt verkefni skili raunverulegum markmiðum um að sýna (Forseti hringir.) hvar verkefnum sé best fyrir komið með hagsmuni íbúa í huga?

(Forseti (BN): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)