Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

uppbygging geðdeilda.

98. mál
[13:12]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og stuðninginn við málið. Það er mikilvægt að við tökum saman höndum og náum þessari þingsályktunartillögu í gegn hér á þingi. Hún er gríðarlega mikilvæg en þarf ekki að vera svo flókin eða kostnaðarsöm að það verði farið í að greina þetta, farið í að skipuleggja framtíðina, af því að þetta er nauðsynlegt. Það er gríðarlega kostnaðarsamt að gera hlutina ekki eða illa. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir um skömmina og þá slæðu skammar sem fylgir þessum málaflokki og hvernig hann er enn í dag algert olnbogabarn í íslensku heilbrigðiskerfi. Nú á sér stað vitundarvakning sem Landssamtökin Geðhjálp leiða, einu sinni sem oftar, þar sem er verið að benda á hlutdeild geðheilbrigðis í heilbrigðiskerfinu. Talið er að geðheilbrigðisþjónusta sé um 25% af heildarþjónustu í heilbrigðiskerfinu en málaflokkurinn fær einungis 5% af veittu fjármagni í heilbrigðiskerfið. Ég tel að þau mistök sem voru gerð þegar ekki var gert ráð fyrir nýju húsnæði fyrir geðdeild opni í raun augu okkar fyrir því hvað geðheilbrigðismálin mæta alltaf miklum afgangi. Þegar einhvers staðar á að skera niður þá er það þar. Því miður er eins og við lítum svo á að þetta muni einhvern veginn reddast. En svo er auðvitað ekki.