150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[11:45]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að sjálfbærni byggist á þessum þremur þáttum og auðvitað eru þeir að einhverju leyti huglægir og kannski erfitt að setja eitthvert strik eða línu í sandinn hvað það varðar. Þess vegna er jöfnunarsjóðurinn til og þess vegna er hann síbreytilegur. Í dag eru 13–14% af tekjum sveitarfélaga komin frá jöfnunarsjóði en í einstaka tilvikum, hjá sumum sveitarfélögum, eru þau langt yfir 50% af tekjum og jafnvel enn hærri.

Markmiðið er ekki að leggja jöfnunarsjóð niður. Markmiðið er að hann geti hugsanlega orðið einfaldari og skýrari og þannig náð betur fram markmiðum sínum. Ef við berum okkur saman við Noreg er hlutfall tekna sveitarfélaga sem koma frá norska jöfnunarsjóðnum mun hærra, enda mun fleiri verkefni sem búið er að færa yfir til sveitarfélaganna á Norðurlöndunum en hér, m.a. vegna þess að við höfum haft svo mikið af mjög fámennum sveitarfélögum sem ekki geta á sjálfbæran hátt tekið við þessum verkefnum. Það hefur staðið þeirri leið fyrir þrifum.

Svo getur verið sérstök umræða um það hvort í 350.000 manna samfélagi eigi að dreifa ábyrgð á þessum verkefnum til sveitarfélaga eða halda þeim hjá ríkinu, en við höfum valið þessa norrænu leið. Þess vegna höfum við smátt og smátt verið að þróa þetta. Og gjarnan má taka þessa umræðu um 1.000 íbúa markið. Tryggir það efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbærni? Menn hafa komist niður á einhverja tölu, eins og ég sagði, og er kannski einhvers konar málamiðlun, en það er samt mat á þeim verkefnum sem sveitarfélögin í dag þurfa að standa frammi fyrir, þ.e. þessi lögbundnu verkefni sveitarfélaganna, að ef íbúafjöldi yrði langt undir því þá eru þau verr í stakk búin til þess. Engu að síður mun jöfnunarsjóðurinn ávallt þurfa að koma til til að jafna aðstæður í þeim tilgangi (Forseti hringir.) að tryggja hitt markmiðið, að íbúarnir fái sem jafnasta og besta þjónustu óháð því hvar þeir búa.