145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Mig langar að staldra aðeins betur við þessar meginforsendur fyrir forgangsröðuninni. Ég er sammála þingmanninum og ég held að við upplifum það öll hér að þetta er a.m.k. ekki alveg eins og best verður á kosið núna. Eins og ég sagði áðan er of mikið af tilviljanakenndum ákvörðunum eða ákvörðunum sem eru kannski ekki rökstuddar sérstaklega nema með afli tiltekinna þingmanna eða tiltekinna sveitarfélaga o.s.frv. Hv. þingmaður nefnir hér eitt leiðarljós sem er jöfnuður, þ.e. jöfnuður með hliðsjón af búsetu. Þá er hv. þingmaður kannski með það fyrst og fremst að leiðarljósi að horfa til byggðaþróunar, að fólk geti valið sér búsetu í þeirri fullvissu að það sé a.m.k. ekki erfitt að komast á milli staða. Þetta er einn af þeim punktum sem er horft til.

Þingmaðurinn nefndi sérstaklega Breiðafjarðarferjuna Baldur sem sannarlega margir nota hreinlega eins og þjóðveg og vegna þess hvað er bæði löng og ströng leið á sunnanverðum Vestfjörðum þá er það mjög gjarnan þannig að þeir sem búa til að mynda á Patreksfirði nota frekar ferjuna til þess að fara í Hólminn og keyra svo þaðan suður. Þá veltir maður fyrir sér hvort ekki ætti að vera litið á slíkar ferjur sem almenningssamgöngur í miklu ríkara mæli og ég vil spyrja þingmanninn um það.

Þá langar mig að spyrja þingmanninn kannski um þau atriði sem lúta að atvinnuuppbyggingu, sjónarmiðum ferðaþjónustunnar, öryggissjónarmiðunum og síðast en ekki síst hvort sóknaráætlun landshlutanna sé verkfæri til þess að gera þetta betur, að landshlutarnir sjálfir forgangsraði meira innan sinna svæða og heimamennirnir séu sjálfir meira við stjórnvölinn í því að forgangsraða verkefnum.