139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög mikilvægur punktur og mikilvægt að halda til haga í umræðunni. Við samningu frumvarpsins og í þeim útskýringum sem lagðar eru með og stjórnarliðar, þeir fáu sem hér hafa talað, hafa verið að vitna í að meginstoðin eða grunnur frumvarpsins sé að einhverju leyti tillaga þingmannanefndarinnar og rannsóknarskýrslan, þá virðist vera að þegar kemur að meginköflum og þessum stóru deilumálum í frumvarpinu sé um mikinn misskilning að ræða, að það sé byggt á einhverju öðru. Því vil ég leyfa mér, frú forseti, að halda því hreinlega fram að þarna sé um ákveðna blekkingu að ræða, verið sé í sjálfu sér að setja fram blekkingu í frumvarpinu um að þetta byggi á einhverju allt öðru en það gerir.

Ég vil segja við hv. þingmann að það er áhyggjuefni að framkvæmdarvaldið, stjórnsýslan, skuli ekki hafa lært meira af hruninu en þetta.