145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:23]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur setið lengur á þingi en ég er búin að vera til þá langar mig til þess að forvitnast svolítið um það af hverju það virðist vera endalaus togstreita og ágreiningur um vegakerfið. Hvernig stendur á því, eins og hefur komið fram hjá öðrum hv. þingmönnum, að það virðist aldrei vera hægt að gera nokkurn skapaðan hlut í sátt? Ákvarðanataka hefur að miklu leyti litast af einhverju kjördæmapoti, eða alla vega virst litast af kjördæmapoti. Hvernig stendur á því að þegar við erum að taka ákvarðanir um jafn mikilvæg mál eins og lífæð þjóðarinnar sem vegakerfið okkar þarf í raun að vera, að núna 50, 60, 70 árum seinna eftir að bílar fóru að keyra um Vestfirði hafa vegirnir þar ekki lagast? Hvernig stendur á því að við getum ekki verið með heildstæðari mynd af því hvernig öruggur vegur á að líta út? Mér finnst eins og fólk sé að tala í kross. Ein ríkisstjórn segir þetta og önnur hættir við og í rauninni virðast ríkisstjórnarskipti vera það versta sem getur komið fyrir vegakerfið.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, þar sem hann hefur setið svona lengi á þingi og hefur mikla reynslu af pólitík og hefur kunnað sig vel þar: Hvernig stendur á því að vegakerfið verður alltaf pólitískt bitbein? Af hverju má ekki grafa göng eða leggja veg eða byggja brú sem kostar eitthvað án þess að fólk sé sakað um óeðlilegt athæfi? Hefur það verið of mikið í menningu okkar að fólk sé að kaupa sér atkvæði með vegum eða göngum? Hvernig stendur á þessu? Af hverju getum við ekki gert þetta í sátt? Hvað er í raun og veru því til fyrirstöðu?