136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

101. mál
[11:07]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 30/2007, um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

Efnislega sama frumvarp var lagt fram á 135. löggjafarþingi en varð eigi útrætt. Í því frumvarpi var að finna bráðabirgðaákvæði sem er ekki að finna í því frumvarpi sem hér er lagt fram. Þetta mál á sér nokkurn aðdraganda sem ég tel rétt að reifa stuttlega í byrjun.

Starfsemi frístundafiskiskipa má rekja til ársins 2005. Á þeim tíma var ekki að finna heildstæða löggjöf um starfsemina en í ljósi eðlis hennar, þar sem skip eru leigð ferðamönnum til sjóstangaveiða, var litið svo á að starfsemin sem slík væri atvinnustarfsemi. Í ljósi þess voru gerðar sömu kröfur til skipanna eins og um fiskiskip af sömu stærð væri að ræða. Hins vegar var litið svo á að áhöfnin lyti sömu lögmálum og áhöfn skemmtibáta þar sem um frístundaiðju væri að ræða og þyrfti því engin tilskilin réttindi til þess að stjórna frístundafiskiskipi.

Þau skip sem nú eru leigð til frístundaveiða eru sérsmíðuð, með einfalt stjórnkerfi og eru styttri en 8 metrar að skráningarlengd.

Í byrjun þessa árs skipaði ég starfshóp með það hlutverk að fara yfir öll lög og reglur er varða frístundafiskiskip með það að markmiði að einfalda stjórnsýslu og minnka skriffinnsku en um leið að treysta og tryggja öryggi sjófarenda. Hópurinn er enn að störfum en ákvað í byrjun að taka til sérstakrar skoðunar réttindamál stjórnenda frístundafiskiskipa.

1. janúar 2008 tóku í gildi lög nr. 30/2007, um áhafnir fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa. Í lögunum er að finna ákvæði um þær kröfur sem gerðar eru til áhafna mismunandi flokka skipa og stjórnenda þeirra eftir því hvernig skipin eru skilgreind í lögunum.

Með lögunum eru frístundafiskiskip ekki sérstaklega skilgreind. Skilgreiningarhugtak skipanna er háð því hvernig þau eru skráð í aðalskipaskrá Siglingastofnunar Íslands. Í því sambandi ráðast réttindakröfur að miklu leyti eftir því hvernig skipin eru skráð, auk stærðar þeirra o.s.frv. Þannig þurfa stjórnendur skráningarskyldra skemmtibáta að hafa sérstakt skemmtibátaskírteini. Í ljósi þess að frístundafiskiskip eru skráð sem slík í skipaskrána rúmast það ekki innan skilgreiningarhugtaka fiskiskipa eða skemmtibáta og fellur því undir flokkinn önnur skip.

Þegar af þeim sökum verður að horfa til krafna um áhafnir slíkra skipa þannig að hægt sé að heimfæra þær kröfur yfir á frístundafiskiskip. Ljóst má vera að skemmtibátaskírteini á aðeins við um skemmtibáta eins og þeir eru skilgreindir og þær kröfur sem gerðar eru til annarra skipa eiga einungis við um þá sem starfa um borð á slíkum skipum. Í ljósi þess kveða lögin ekki á um hæfnisskilyrði þeirra sem stjórna frístundafiskiskipum.

Nauðsynlegt er að bregðast við því tómarúmi, sem hefur skapast, með því að gera a.m.k. sömu kröfur til þeirra sem stjórna frístundafiskiskipum og þeirra er stjórna skemmtibátum. Um ört vaxandi atvinnugrein er að ræða og skiptir því verulegu máli að tryggja öryggi sjómanna og gera tilteknar kröfur um hæfni og þekkingu þeirra er stjórna skipunum. Þess má geta að í lok apríl sl. fórust fjórir þýskir ferðamenn í Noregi sem höfðu leigt sér frístundafiskiskip.

Hæstv. forseti. Ég mun nú stuttlega gera nánari grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins. Frumvarpið fjallar fyrst og fremst um frístundafiskiskip og um hæfniskröfur þeirra sem stjórna skipunum.

Í fyrsta lagi er að nefna að lagt er til að frístundafiskiskip verði skilgreint sérstaklega líkt og aðrar tegundir skipa.

Í öðru lagi er lagt til að gera skuli a.m.k. sömu kröfur til þeirra sem stjórna frístundafiskiskipum og þeirra sem stjórna skemmtibátum, þ.e. að viðkomandi þurfi a.m.k. að hafa skemmtibátaskírteini til strand- eða úthafssiglinga eða annað sambærilegt erlent skírteini að mati Siglingastofnunar Íslands.

Í þriðja lagi er lagt til að sá sem gerir út á starfsemi frístundafiskiskipa skuli sjá til þess að stjórnandi frístundafiskiskips hafi fullnægjandi réttindi og hafi fengið fullnægjandi kennslu á skipið, m.a. á björgunarbúnað þess, fjarskiptatæki, siglingakort o.s.frv.

Ég hef nú rakið helstu efnisatriði frumvarpsins en því til viðbótar má nefna að í frumvarpinu er að finna reglugerðar- og gjaldtökuheimild.

Eins og fram hefur komið er hér um mikilvægt mál að ræða og nauðsynlegt að tilteknar lágmarkskröfur verði gerðar til stjórnenda frístundafiskiskipa og að um starfsemina verði ákveðin umgjörð með tilliti til öryggis mannslífa, eigna og umhverfis.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð lengri heldur legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.