145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

menning á landsbyggðinni.

[11:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem er afar þörf. Við þurfum að horfa sérstaklega til menningarmálanna út um allt land eftir mikinn niðurskurð sem hófst 2009. Að vísu var byrjað að gefa aðeins til baka á árunum 2012 og 2013 en lítið hefur bæst við síðan þó að ríkissjóður hafi rétt úr kútnum.

Það var þannig að fjárlaganefnd úthlutaði af óskiptum liðum fjárlagafrumvarpsins, m.a. til menningarmála, allt til ársins 2012. Úthlutun safnliða með þessum hætti hafði þá verið gagnrýnd harkalega af þingmönnum allra flokka og af Ríkisendurskoðun. Breytingar voru gerðar þannig að menningarhlutinn var færður yfir til menningarsamninga landshluta. Markmiðið með breytingunni sem gerð var árið 2012 var að gera úthlutunina gegnsærri og auka traust á því hvernig fjármunum ríkisins var skipt. Menn leiddu að því líkur að fjárlaganefndarmenn færu kannski ekki alveg eftir stefnunni og því sem sveitarfélögin helst vildu. Það átti að efla þarfagreiningu og eftirlit. Hugmyndin var sú að þegar þarfagreiningin væri komin til landshlutasamtakanna og veittir væru styrkir til verkefna sem þar væru þá yrði eftirlit heimamanna auðveldara og síðan ætti að bæta stjórnsýslu og yfirsýn með einstaka málaflokkum, enda heyrir Alþingi ekki undir stjórnsýslulög en það gera hins vegar bæði ráðuneyti og sveitarfélög.

Ég held að vandamálið núna sé fyrst og fremst fjármunir. Við þurfum að setja aukna fjármuni í menningu. Við þurfum að gera um það áætlun hvernig við ætlum þó ekki nema að ná aftur þeirri stöðu sem var hér fyrir efnahagshrunið.