151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

almenn hegningarlög.

241. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V):

Hæstv. forseti. Ég tala hér um brotin sem við viljum helst ekki vita af og vildum vitaskuld að væru ekki til. Ég er að tala um brot sem varða barnaníðsefni. Ég mæli fyrir frumvarpi til breytinga á almennum hegningarlögum um kynferðisbrot. Tilefni frumvarpsins er aukin útbreiðsla barnaníðsefnis á netinu og umfang þeirra mála sem koma til kasta lögreglu, ákæruvalds og dómstóla og markmið frumvarpsins er að við bregðumst við. Sá veruleiki kallar einfaldlega á lagabreytingar og þær er verið að leggja til í þessu frumvarpi. Eins jákvæð og tækniþróunin er, er það um leið staðreynd, og í sjálfu sér er ekkert nýtt í því, að á tækniþróuninni eru vitaskuld líka dökkar hliðar. Samhliða framþróun tækninnar hefur orðið mun auðveldara en áður að verða sér úti um barnaníðsefni á netinu. Það er mun auðveldara að dreifa alls konar efni af þessu tagi. Þetta eru ljósmyndir, kvikmyndir, myndskeið eða annað efni sem sýnir börn og ungmenni á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Þessi brot eru því miður umfangsmeiri, skipulagðari og jafnvel grófari í einhverjum tilvikum en áður. Framleiðsla og dreifing barnaníðsefnis er í ákveðnum tilvikum beinlínis hluti af skipulagðri glæpastarfsemi. Þetta er iðnaður með mikilli fjárhagslegri veltu þar sem brotið er kynferðislega gegn börnum til að framleiða efnið. Sú þróun er alþjóðleg og Ísland er þar því miður ekki undanskilið. Alþjóðleg samvinna lögreglu er gríðarlega mikilvæg á þessu sviði og hefur leitt til þess að yfirvöld vinna þvert yfir landamæri og fá inn til meðferðar mál sem eru stærri að umfangi en áður.

Þannig er staðan núna. Lögregla er, eins og við höfum séð í fréttum undanfarið, með nokkur mjög stór mál til meðferðar, tugir manna eru með réttarstöðu sakbornings fyrir það að vera með efni af þessum toga, barnaníðsefni, í vörslu sinni. Þetta frumvarp hefur vitaskuld ekki áhrif á þau mál sem þegar eru til rannsóknar hjá lögreglu, svo það sé sagt og áréttað þannig að um það sé enginn misskilningur, enda er refsilöggjöf okkar aldrei afturvirk. En staðan, þau mál og sú umfjöllun sem við höfum séð í fréttum nýverið, undirstrikar þörfina. Þó að frumvarpið hafi þegar verið í smíðum þegar þessar fréttir komu fram þá lít ég svo á að umfjöllun um þau stóru mál sem lögreglan á Íslandi er með til rannsóknar í dag segi okkur einfaldlega hver staðan í þessum málaflokki er. Staðan kallar á að þetta ákvæði hegningarlaganna, sem fjallar um barnaníðsefni og tilgreinir hver refsiramminn er hvað þau brot varðar, verði uppfært þannig að það geti náð fram tilgangi sínum. Þegar við skoðum dóma á grundvelli þess ákvæðis sem fjallar um þessi brot, 210. gr. a almennra hegningarlaga, sjáum við að þegar um stórfelld brot hefur verið að ræða hafa sakborningar í þeim málum verið með tugi þúsunda mynda í vörslu sinni, tugi þúsunda mynda í tölvunni hjá sér eða í símanum eða hvoru tveggja, af börnum og ungmennum sem sýnd eru á kynferðislegan hátt. Í einhverjum tilvikum, það á yfirleitt við þegar menn eru teknir með þetta mikið magn efnis, er um mjög ung börn að ræða og efni í einhverjum tilvikum, og oftar en við vildum, sem sýnir mjög gróf kynferðisbrot gegn þessum ungu börnum.

Refsingar fyrir vörslu barnaníðsefnis hafa ekki alltaf verið í samræmi við alvarleika brotanna. En ég vil hins vegar árétta og undirstrika það alveg sérstaklega, varðandi þann hærri refsiramma sem hér er lagður til, að ástæða þess að þetta frumvarp er lagt fram er fyrst og fremst sú að þessi brotaflokkur er að taka breytingum, og hefur tekið breytingum á undanförnum árum. Meginástæðan er ekki sú að hér sé um að ræða þunga gagnrýni á dómstólana. Í þeim veruleika sem dómstólarnir starfa blasir það auðvitað við, með refsiramma sem er að hámarki tvö ár, að hámarki tveggja ára refsing fyrir svokölluð stórfelld brot, að refsingarnar munu aldrei geta speglað alvarleika brotanna. Þar vísa ég líka til þeirrar hefðar sem við þekkjum innan íslenskra dómstóla, að refsingar á Íslandi, og það á við um kynferðisbrot eins og önnur brot, eru yfirleitt ákvarðaðar í neðri mörkum refsirammans. En breytingin sem hér er lögð til er sú að refsirammi fyrir stórfelld brot á þessu ákvæði verði hækkaður, að refsiramminn fari úr tveimur árum upp í sex ár, úr tveggja ára hámarki upp í sex ára hámark. Slíkur refsirammi nær einfaldlega með sterkari hætti utan um stórfelld mál, mál sem eru stærri í dag en þau voru fyrir einhverjum árum, stærri vegna þess að menn eru með mikið magn barnaníðsefnis, meira en áður, vegna þess að efnið er aðgengilegra en áður vegna tækninnar. Menn geta auðveldlega viðað að sér gríðarlega miklu efni, miklu magni af mjög grófu barnaníðsefni.

Ég ætla að hlífa þingsalnum við því að ræða hvað sjá má á slíkum myndum og myndskeiðum, en það þekki ég hins vegar úr fyrra starfi. Í því sambandi finnst mér líka mikilvægt að tala um það og segja það bara eins og það er, að þegar við tölum um barnaníðsefni, myndir, ljósmyndir, myndskeið, kvikmyndir, hvað svo sem það nú er, þá er ekki hægt að horfa á slíkt efni eins og það hafi orðið til í tómarúmi. Í fyrsta lagi er það auðvitað þannig að til þess að framleiða efnið þarf að brjóta gegn barni. Í öðru lagi verður slíkt efni ekki til nema vegna þess að eftir því er eftirspurn. En með breytingunni værum við komin með refsiramma sem væri þá á svipuðum slóðum og er annars staðar á Norðurlöndunum. Það skiptir máli í mínum huga að við sitjum ekki eftir í þessu efni. Þar er ég t.d. að hugsa um samstarf lögregluyfirvalda í þessum málum. Við vinnslu frumvarpsins skoðaði ég sérstaklega hver þróun löggjafar hefur verið að þessu leyti á Norðurlöndunum. Með þessari breytingu er refsirammi okkar á pari við löggjöf annarra Norðurlanda. Þau eru nú ekki þekkt fyrir að vera öfgasinnar í refsilöggjöf. Allt eru þetta lönd þar sem refsipólitíkin þykir hófstillt. En það er eðlilegt að löggjöfin sé á svipuðum slóðum í mati á alvarleika, og refsing endurspeglar auðvitað alltaf alvarleikastig löggjafans. En það er líka eðlilegt að þetta ákvæði í kynferðisbrotakaflanum sitji ekki eftir samanborið við önnur ákvæði kynferðisbrotakaflans. Með þessari breytingu lít ég svo á að fram sé komið betra samræmi um refsingar í kynferðisbrotakaflanum sjálfum.

Hafi einhver áhyggjur af þessu atriði vek ég athygli á því að sex ára refsihámark er í sjálfu sér hófstilltur rammi. Við værum með þessari breytingu ekki að hverfa frá fyrri stefnu okkar sem hér ríkir almennt séð um refsipólitík, það skiptir máli í mínum huga. Með sex ára refsihámarki erum við þess umkomin að þegar stór mál, stærri mál, koma til kasta dómstólanna með tímanum, segjum sem svo að við fáum t.d. inn á borð stórt mál sem lýtur að framleiðslu eða umfangsmikilli dreifingu, þá höfum við rammann til að bregðast við. Ég á ekki von á því að þessi breyting muni sjálfkrafa leiða til þess að refsingar fyrir brot sem eru minni í sniðum, ef hægt er að orða það með þeim hætti, muni sjálfkrafa þyngjast með þessu, heldur að hér séum við komin með leið til að grípa stærri málin, enda er það sérstaklega tiltekið í ákvæðinu eftir sem áður, það er tiltekið í ákvæðinu í dag og yrði þá áfram í þessari nálgun, að þetta hámark eigi við um hin svokölluðu stórfelldu brot. En kjarnaatriðið í þessu máli og hjartað í málinu, ef svo mætti segja, er að við viljum sýna vilja til að auka refsivernd barna, því að það eru jú börn sem eru á þessum myndskeiðum. Og ég segi það aftur: Það þarf að brjóta á barni kynferðislega til að búa þetta efni til. Þeir sem sitja og horfa á þetta efni og eru með slíkt í vörslu sinni framkalla þá eftirspurn eftir því að svona efni verði til.

Með þessari breytingu ætlum við að færa lögreglu, ákæruvaldi og dómstólunum betri verkfæri til að takast á við þessi mál. Ég tel að við værum að senda mikilvæg refsipólitísk skilaboð um hvaða augum við lítum barnaníðsmál. Það þarf að verja hagsmuni barna betur fyrir brotum samkvæmt þessu ákvæði og ég lít svo á að þetta skref muni hafa það í för með sér.

Aðeins um hver þróunin hefur verið. Ég vil fjalla aðeins um hver veruleiki þessarar brotastarfsemi er í dag. Ég nefni sem dæmi sérstök spjallsvæði sem finna má á netinu, á hinum svokallaða „dark web“, sem hafa því miður auðveldað samskipti manna, fólks sem er að leita sér að svona efni og deila því sín á milli og miðla því. Þessi samskipti auðvelda mjög aðgengi að barnaníðsefni. Á þessum svæðum hafa menn því miður ekki aðeins verið að deila þessu efni með öðrum, heldur í grófustu tilvikunum hafa þeir lagt á ráðin um að brotið verði með tilteknum hætti gegn barni til að horfa síðan á það þegar brotið er framið gegn barninu, og myndefnið af því kynferðisbroti gegn barni nær í kjölfarið mikilli útbreiðslu á netinu. Þar þarf að hafa í huga að brot gagnvart barni í þeirri stöðu felst þá í tvennu: Annars vegar verður þetta barn fyrir kynferðislegu ofbeldi og hins vegar er aftur brotið gegn barninu þegar myndskeið sem sýnir brotið verður aðgengilegt öðrum brotamönnum á netinu. Og við vitum að hér gildir sem fyrr að börn í viðkvæmri stöðu eru í mestri hættu gagnvart brotum af þessu tagi, börn í ákveðnum löndum og börn frá ákveðnum svæðum þar sem þessi iðnaður þrífst. En hitt er svo annað mál að þetta getur auðvitað líka gerst þegar brotið er t.d. gegn barni inni á heimili þess og gerandinn sem brýtur gegn barninu tekur það upp á síma og dreifir því síðan áfram eða geymir það bara á símanum sínum.

Ég myndi líka vilja nefna almenna notkun snjallsíma sem annað atriði og sem breytingu. Vitaskuld eru þetta ekki breytingar sem orðið hafa á síðustu mánuðum en þetta er annar veruleiki en var fyrir einhverjum árum síðan. Gerendur sem brjóta kynferðislega gegn barni eiga auðveldara en áður með að taka ljósmyndir eða myndskeið af brotinu því að fólk er alltaf með símann við höndina. Það á því miður við um þann sorglega veruleika þegar kynferðisbrot er framið gegn barni af hálfu nákomins, t.d. inni á eigin heimili. Þannig eru gerendur stundum að framleiða barnaníðsefni til eigin nota og hafa því möguleika á því í kjölfarið að dreifa þeim myndum og myndskeiðum áfram.

En aðeins að einstökum efnisatriðum frumvarpsins.

Kjarninn í frumvarpinu og þungamiðjan er breytingin er varðar refsirammann. En þarna eru líka önnur atriði undir, svo sem í a-lið 1. gr. frumvarpsins, að bæta orðinu „dreifir“ við 1. málslið 1. mgr. 210. greinarinnar. Samkvæmt núgildandi orðalagi ákvæðisins er refsivert að afla sér eða öðrum barnaníðsefnis. Í orðalagi 2. mgr. 210. gr. er tilgreint sérstaklega að refsivert sé að dreifa á annan hátt, en nú erum við að leggja til að orðinu „dreifir“ verði bætt við 1. mgr. Ástæðan fyrir þeirri breytingu er að aukin útbreiðsla barnaníðsefnis felst ekki síst í því að menn dreifa slíku efni til mikils fjölda manna í stað þess að tveir og þrír aðilar séu að skiptast á svona efni, að menn séu raunverulega að birta efni á stórum spjallsvæðum þar sem fjöldi manna tekur þátt, þannig að dreifingin sé þá þannig að hún nái til ótilgreinds fjölda manna. Í því ljósi er talin ástæða til að tilgreina sérstaklega þetta orð, „dreifir“, enda þótt sú háttsemi að afla öðrum barnaníðsefnis sé nú þegar refsiverð. Ég tel að slík breyting sé til þess fallin að styrkja refsiverndina og skerpa á ákvæðinu enn frekar að þessu leyti og með því sé brugðist skýrlega við nýrri birtingarmyndum þessara brota. Hér er því kannski fyrst og fremst verið að skerpa orðalag að þessu leyti.

Önnur efnisbreyting er síðan svokallað ítrekunarákvæði í 2. gr. frumvarpsins, en þar segir að sé maður dæmdur fyrir brot gegn 210. gr. a eða b megi samkvæmt því hækka refsingu allt að helmingi hennar ef brotið er ítrekað, að gættum reglum 71. gr. hegningarlaga. Þetta ákvæði þjónar þeim tilgangi að taka fastar á þeim sakborningum sem eru þá öðru sinni eða oftar dæmdir fyrir þessi alvarlegu brot. Þarna erum við einfaldlega að leggja til ítrekunarheimild þegar við erum að fást við síbrotamenn á þessu sviði.

Svo er annað atriði og samtal sem ég myndi gjarnan vilja eiga hér í þingsal og sjá stjórnvöld kynna úrræði um, en það eru meðferðarúrræði fyrir gerendur í þessum málaflokki, meðferð sem stæði gerendum til boða, bæði eftir að þeir hafa hlotið dóm og eru eftir atvikum að afplána, en líka eftir. Það held ég að sé mikilvægt að gera og að gera það samhliða. En að því sögðu held ég að ekkert land, a.m.k. ekkert þeirra sem við viljum bera okkur saman við, myndi fara þá leið, þegar um er að ræða stórfelld brot gegn þessu ákvæði, að beita meðferðinni eingöngu. Hún er þá verkfæri sem við viljum beita samhliða. Í því sambandi finnst mér sjálfri mjög áhugavert að skoða hvort við getum ekki boðið meiri meðferðarúrræði fyrir menn sem lokið hafa afplánun, þannig meðferðarúrræðin standi til boða lengur en meðan á afplánun stendur.

En aftur að refsihámarkinu. Sú breyting og ákvæðið með þeirri breytingu bera skýrlega með sér hver afstaða löggjafans er. Afstaða löggjafans er sú að menn, einstaklingar sem skoða barnaníðsefni, sem hafa það í vörslu sinni, sem afla sér barnaníðsefnis, leita eftir því og finna það eða afla öðrum þess, eiga veigamikinn þátt í því að barnaníðsefni er framleitt. Fram hjá því verður einfaldlega ekki litið. Þetta er ekki brot sem við getum fallist á að sé brot án þolanda því að án þess að fólk færi að leitast eftir þessu efni væri það ekki framleitt. Barnaníðsefni verður eingöngu til vegna þess að eftirspurn eftir þessu ofbeldi gegn börnum og ungmennum er til staðar. Það er líka mikilvægt að hafa það í huga, eins og ég nefndi áðan, og það finnst mér vera kjarnaatriðið í þessu, að þegar barnaníðsefni er framleitt þá er framið brot gegn því barni eða þeim börnum sem síðan sjást á þessum myndum eða myndskeiðum og þess vegna er ekki hægt að taka undir það að neytendur þessa efnis séu alfarið undanskildir þeim veruleika. Ábyrgð þeirra er mikil. Ábyrgð manns sem skoðar barnaníðsefni er mikil, og þó að löggjafinn líti ekki svo á að þó að viðkomandi sé ekki beinlínis sjálfur að framleiða slíkt efni þá eru þessi brot órofa þáttur í þeim brotum sem framin eru gegn börnunum við framleiðsluna. Með því að hækka refsihámarkið fyrir stórfelldu brotin gegn ákvæðinu er markmiðið að fæla menn frá þessum brotum og auka þannig vernd barna fyrir þeim. Auðvitað er það alltaf þannig að afstaða löggjafans til þess hve alvarlegum augum tiltekin brot eru litin endurspeglast í refsiramma laganna. Það er líka slík refsipólitík sem mér finnst að mætti fara meira fyrir hér í þingsal. En þetta er auðvitað veruleikinn. Svo er það annað mál með hvaða hætti þessum ramma er beitt, hversu ofarlega er farið í einstaka brotategundum. Það er í sjálfu sér ekki í öðrum brotaflokkum en broti gegn 211. gr. almennra hegningarlaga, fyrir morð, þar sem framkvæmdin hefur verið sú að fara alltaf upp í efstu mörk. Að öðru leyti höfum við verið að dæma fremur í neðri mörkum refsirammans.

Önnur viðbótarröksemd um þessa hækkun er að með því að senda skýr og afdráttarlaus skilaboð um að hér sé um að ræða brot sem varði sex ára fangelsi þegar um stórfelld mál er að ræða, verði það lögreglu hvatning til að setja enn frekari kraft í frumkvæðisvinnu á þessu sviði, í frumkvæðisvinnu við að leita þessi mál uppi á netinu og að fylgja þeirri þróun sem orðið hefur í norrænni löggjöf og nánar er vikið að og sérstaklega fjallað um í greinargerðinni. Þar voru löndin í kringum okkur skoðuð. Ákvæði laganna eru ekki öll eins orðuð eða uppbyggð, en þau eru eins að inntaki og vel samanburðarhæf.

Herra forseti. Með frumvarpinu eru jafnframt lögð fram í greinargerð ákveðin refsisjónarmið sem líta eigi til við mat á alvarleika brots, atriði sem dómstólum er ætlað að líta til við ákvörðun refsingar í þessum málum. Þar var farin sú leið að miða við sömu atriði, eða a.m.k. hliðstæð atriði, og lögð eru til grundvallar í danskri löggjöf annars vegar, og sænskri löggjöf hins vegar. Þessi sjónarmið, um til hvers dómstólar eigi að líta við ákvörðun refsingar, hefur vantað í þetta ákvæði og ég tel að hér sé fram kominn ágætisverkfærakassi fyrir dómstóla til að hafa til hliðsjónar varðandi til hvers eigi að líta við mat að þessu leyti. Það er augljóst, og hefur verið gert í dómum sem fallið hafa, að þar er fyrst litið til magnsins, hvað viðkomandi er með mikið efni, mikinn fjölda mynda, myndskeiða, ljósmynda, myndbúta, kvikmynda o.s.frv. Litið er til grófleika efnisins. Litið er til eðlis og alvarleika þeirra brota sem framin eru gegn börnum við framleiðslu efnisins. Og lagt er til að litið verði til afleiðinga sem þessi brot hafa í för með sér fyrir brotaþola í þeim tilvikum þar sem það liggur fyrir, eða hið klassíska mat á því að ætla megi að barn sem verður fyrir tiltekinni reynslu beri þess merki eða sé líklegt til að upplifa andlegar afleiðingar í kjölfar þess.

Önnur atriði eru aldur þeirra barna sem brotið er gegn við framleiðslu efnisins, hvort lífi þeirra og heilsu hafi verið ógnað. Þarna er einnig sjónarmið um hversu sársaukafullt, meiðandi eða niðrandi efnið var og þá á einnig að horfa á það til refsiþyngingar ef brotið var skipulagt, þ.e. liður í skipulagðri brotastarfsemi.

Hér eru tiltekin atriði sem horfa á til, með hliðsjón af þeim leiðum sem farnar hafa verið í danskri og sænskri refsilöggjöf. En það er líka sagt og fjallað um það í frumvarpinu að vitaskuld sé það engu að síður svo að hér sé alltaf um heildstætt mat að ræða. Við ákvörðun refsingar er það vitaskuld svo að annars vegar er verið að horfa til atvika í tengslum við brotið sjálft, en hins vegar, því til viðbótar, koma sjónarmið er varða sakborning, hagi hans og fyrri feril, hegðun eftir að brot var framið og svo framvegis.

Herra forseti. Ég hef farið yfir helstu efnisatriðin í þessu frumvarpi. Það má í sjálfu sér segja að hér sé um einfalt frumvarp að ræða. Lagðar eru til tvær efnisbreytingar sem báðar lúta að refsisjónarmiðum, og lögð er til breyting á orðalagi ákvæðisins til þess að ná með skýrari hætti utan um nýrri birtingarmyndir þessara brota.

Ég ætla að leyfa mér að segja að ég er stolt af þessu frumvarpi. Þetta er mitt fyrsta frumvarp sem ég legg hér fram og ég viðurkenni fúslega að hugmyndin að þessu máli er til komin og fram komin eftir reynslu mína af því að starfa innan ákæruvaldsins og að saksókn kynferðisbrotamála. Ég hef lengi verið hugsi yfir þeim refsiramma og þeim refsipólitísku skilaboðum sem felast í núgildandi löggjöf okkar.

Eins og ég sagði í upphafi fjallar þetta mál um veruleika og brotastarfsemi sem við viljum helst ekki vita af. Við viljum vitaskuld ekki að þessi brot eigi sér stað, fyrirfinnist eða séu til. Veruleikinn er hins vegar annar. Það er einlæg von mín að þetta mál fái þá meðferð hér innan þings að það geti orðið að lögum á þessu þingi. Þar held ég að annars vegar vinni með málinu að hér er í sjálfu sér ekki um flókna breytingu að ræða, og hins vegar hefur það vakið með mér bjartsýni að þegar ég fór af stað með það verkefni að leita að meðflutningsmönnum fékk ég mjög jákvæð viðbrögð frá þingmönnum allra stjórnmálaflokka. Þingflokkur Viðreisnar stendur sameinaður að baki þessu máli en meðflutningsmenn koma úr öllum flokkum hér á þingi. Það vekur með mér bjartsýni og ég ætla að hafa þá trú að þetta frumvarp, sem ég held að sé mikilvæg, efnisleg og refsipólitísk breyting, verði hér að lögum í lok þings.