136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

staða á fjölmiðlamarkaði á Íslandi.

[14:15]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Alltaf gerist eitthvað stórt um helgar. Nú reis upp Rauðsól eða vígahnöttur eða rosabaugur og ætlar að eignast alla einkarekna fjölmiðla á Íslandi. Ég spyr: Er hér í gangi brunaútsala á nánast öllum fjölmiðlum og fjölmiðlavaldi Íslands til eins manns sem jafnframt hefur yfirburðastöðu á neytendamarkaði? Er það ríkisvaldið sem stendur fyrir þessu í gegnum ríkisbankann?

Salan á 365 miðlum til Rauðsólar, einkahlutafélags í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, er gerð að tillögu Landsbankans að sagt er. Ekki er ljóst hver ætlar að lána Jóni Ásgeiri fyrir kaupunum. Vil ég ekki fullyrða neitt þar um. En ég spyr: Á einhver ríkisbanki þar hlut að máli með bráðabirgðabankaráð og bráðabirgðabankastjórn? Greitt er fyrir hlutinn með 1.500 millj. kr. og til viðbótar yfirtekur nýja félagið að minnsta kosti 2 milljarða af skuldum 365 og ábyrgðir fyrir 2 milljarða til viðbótar. Talað er um afskriftir skulda upp á 5–6 milljarða.

Á félaginu hvíla ábyrgðir í breskri prentsmiðju fyrir 2 milljarða sem hafði áður verið aflétt og þær færðar yfir til FL Group en nú birtast þær í reikningum 365 á nýjan leik. Viðskiptin með þessa prentsmiðju hafa ekki farið hátt hérlendis en Bretar hafa reist brúnir yfir þeim og svo virðist sem sami leikur hafi verið leikinn þar og með síendurtekna yfirskuldsetta sölu FL Group og fleiri fyrirtækja.

Sumir hluthafar eru mjög óánægðir og átelja vinnubrögð stjórnar fyrir að hafa fyrirvaralaust á síðustu metrunum selt kjarnastarfsemi og verðmætustu eignirnar úr því til stærsta hluthafans áður en hinum hluthöfunum 600 gæfist svigrúm til þess að athafna sig. Bent var á að enn væru til á Íslandi menn sem gætu hugsað sér að eignast félagið og þyrftu ekki lán til en stjórnin ákvað snarlega að selja stærsta hluthafanum félagið á spottprís.

Á einn ríkisbankanna, sem nú ber fólk út af heimilum sínum vegna vanskila á lánum sem því var af starfsmönnum sama banka ráðlagt að taka, að fjármagna einn einasta athafnamann með þeim afleiðingum að lýðræði þjóðarinnar bíður hnekki? Er ekki ljóst að vegna annarra umsvifa Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á neytendamarkaði hérlendis er þessi hlutur honum meira virði en flestum öðrum? Eru allir hinir frjálsu fjömiðlarnir gjaldþrota eða svo yfirhlaðnir skuldum í nýju ríkisbankakerfi? Ég spyr: Er þá ekki réttara fyrir ríkið í nafni frelsisins að selja hina góðu fjölmiðla á markaði hæstbjóðanda? Einhverjir mundu vilja kaupa Morgunblaðið , aðrir Fréttablaðið , hinir þriðju hið góða útvarp Bylgjuna og fjórðu Stöð 2 með öllum sínum tækifærum. Fjórða valdið væri tryggt í höndum margra einstaklinga og fyrirtækja. Lykilatriðið er þrátt fyrir allt að setja löggjöf utan um eignarhald fjölmiðla í ljósi fenginnar reynslu.

Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Telur ráðherra ásættanlegt að einn maður skuli nú eiga flesta fjölmiðla og þar með langstærstan hlut fjölmiðlamarkaðar á Íslandi og ráða þar með að mestu leyti yfir fjórða valdinu sem gjarnan er nefnt í sömu andrá og þrígreining ríkisvaldsins? Telur ráðherrann að þessi staða sé ásættanleg fyrir lýðræðið í landinu, að ekki sé minnst á almenning sem á rétt á hlutlausum, óvilhöllum upplýsingum? Telur ráðherrann að lagaumhverfi samkeppnissjónarmiða heimili að fjórða valdið safnist á eina hendi eins og hér virðist vera að gerast? Í hverju felst endurskoðun ráðherrans á starfsumhverfi RÚV sem rætt hefur verið um? Eru fyrirhugaðar breytingar til þess fallnar að veikja stöðu RÚV á þessum fákeppnismarkaði sem virðist vera að líta dagsins ljós?

Ég hef reyndar sannfrétt í morgun að enn sé þessi yfirtaka eins manns á öllum frjálsum fjölmiðlum ekki frágengin. Bankaráð Landsbankans er bráðabirgðabankaráð, ég endurtek það, handlangarar ráðherra og ráðuneyta. Slík bankaráð eiga ekki að taka þessa ákvörðun á sig eða sætta sig við að bankastjórn geri slíkt í þeirra skjóli.

Samkeppniseftirlitið hlýtur að fjalla um það stóra einokunarvirki sem nú er að rísa sem Rauðsól eða rosabaugur eins og ég sagði í upphafi. Í vörn og sókn öflugasta athafnamanns Íslands og að eigin sögn jafnframt stærsta skuldara Íslandssögunnar í gegnum félög sín. Ég vil fá hér skýr (Forseti hringir.) svör. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þessum málum? Hún ber hér alla ábyrgð.