141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

neytendalán.

220. mál
[16:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta er stórt og mikilvægt mál, löggjöf um neytendalán, og er málefni sem við höfum rætt mikið á þessu kjörtímabili. Það eru nokkur atriði sem ég mundi vilja fara aðeins í gegnum og ræða um og beina spurningum til hæstv. ráðherra hvað þau varðar.

Í frumvarpinu er talað um að hafa viðmið hvað varðar uppgreiðslugjald á lánum 1% ef lánið er til lengri tíma en eins árs en 0,5% ef það er til styttri tíma. Ég mundi gjarnan vilja heyra frá ráðherranum hver rökstuðningur er fyrir því að þetta hlutfall sé almennt valið varðandi uppgreiðslugjaldið og hver skoðun ráðherrans sé akkúrat á þessum hlutföllum.

Í máli hv. þm. Helga Hjörvars og að ég tel líka í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar var umtalsvert rætt um fasteignalánin og þá sérstaklega verðtryggðu lánin. Ég hef líka mikið velt fyrir mér hugtakinu árleg hlutfallstala kostnaðar. Í frumvarpinu er talað um að það eigi að tilgreina þessa árlegu hlutfallstölu kostnaðar þegar fólk metur kostnaðinn við það að taka lán. En síðan kemur hér, sem er alveg séríslenskt fyrirbæri, undanþáguákvæði sem tengist verðtryggingunni. Þá er viðurkennt að í raun er ekki hægt að meta þessa árlegu hlutfallstölu kostnaðar á grundvelli verðtryggingarinnar.

Hér er lagt til að settur verði 50% hámarkskostnaður hvað varðar vaxtakostnað á smálánum, plús stýrivextir. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé nauðsynlegt, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar benti á, að skoða tölur eins og dráttarvextina varðandi þessa hámarkstölu hlutfallskostnaðar fyrir verðtryggðu lánin til að setja einhvers konar þak svo að við séum að tala um raunverulega hluti en ekki að reyna að spá um verðlag, olíuverð í Miðausturlöndum, hvort það verði bruni í Rússlandi eða Chávez haldi völdum í Venesúela eða ekki þannig að menn geti raunverulega gert sér grein fyrir því hver þessi hlutfallstala verður.

Það sem er líka áhugavert þegar maður skoðar frumvarpið, eins og lagafyrirkomulagið er hér á landi varðandi verðtryggðu lánin eða raunar eins og lagafyrirkomulagið er ekki á Íslandi, er hvort við séum í rauninni að tala um opna lánasamninga miðað við hvernig verðtryggðu lánin hafa verið sett upp.

Hér eru ákveðin ákvæði varðandi opna lánasamninga eins og að geta sagt lánasamningum upp hvenær sem er. Það er líka verið að tala um yfirdrátt eða veltureikninga, ákveðnar skilgreiningar eru þar um. Eins og Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á þá er í núgildandi lögum um vexti og verðtryggingu alls ekki nægilega skýr lagastoð, að mínu mati eftir að hafa farið vandlega í gegnum þetta í vinnu verðtryggingarnefndarinnar, fyrir þeirri reikniaðferð sem notuð er fyrir verðtrygginguna. Það var bráðabirgðaákvæði um þetta á sínum tíma en árið 2001 og 2002 þegar gerðar voru breytingar á peningastefnunni og ný lög voru sett um Seðlabankann og líka ný lög um vexti og verðtryggingu datt þetta bráðabirgðaákvæði í raun og veru út. Seðlabankinn skilaði að vísu frá sér 13 blaðsíðna lögfræðiáliti um að það ætti að vera stoð fyrir þessari reikniaðferð hjá bönkunum en eins og allir sem lásu það álit sáu þá virtust þeir hjá Seðlabankanum eiga í töluverðum erfiðleikum með að vísa í skýra lagastoð fyrir þeirri reglugerð sem útreikningurinn er byggður á.

Ég held að það sé mikilvægt að bæði ráðherrann og efnahags- og viðskiptanefnd velti fyrir sér hvernig þetta spilar allt saman, þ.e. þau ákvæði sem er verið að setja hér inn, ákvæði varðandi opna lánasamninga, ákvæði varðandi yfirdrátt og raunar þennan veltureikning sem er innifalinn í svokölluðum Íslandslánum sem er ágætishugtak sem kom fram í skýrslu Samtaka fjármálafyrirtækja um verðtrygginguna.

Ég er þeirrar skoðunar að ef menn ætla að hafa þetta fyrirkomulag þurfi að gera það miklu skýrara og setja eitthvert þak þannig að fólk geti raunverulega gert sér grein fyrir því hvaða skuldbindingar það er að taka á sig. Eins og er þá er þetta svona álíka og að fara árlega í spilavíti í Las Vegas.

Annað sem ég velti líka fyrir mér og spurðist fyrir um þegar frumvarpið kom hingað inn í fyrra sinn, og hv. þm. Helgi Hjörvar ræddi aðeins um í ræðu sinni, er eftirlitsaðilinn með framkvæmd laganna. Lagt er til að Neytendastofa fái það verkefni. Ég hef töluverðar áhyggjur af því að Neytendastofa eigi að fá þetta stóra verkefni ef ekki verður farið í að styrkja verulega starfsemi þeirrar stofnunar. Hún brást fullkomlega eftirlitsskyldum sínum hvað varðar til dæmis gengishrunslánin. Hún hefur til dæmis úrskurðað um vaxtaákvæði á neytendalánasamningum en virðist hafa haft mjög fá vopn í núgildandi lögum um Neytendastofu til að fylgja eftir úrskurðum sínum. Í þessu frumvarpi er lagt til að sektir sem Neytendastofa geti lagt á séu frá 100 þús. kr. til 10 millj. kr. Þetta eru verulega lágar upphæðir þegar við erum að tala um milljarða sem liggja þarna undir. Það hefur verið áberandi að Neytendastofa hefur haft mjög litlar heimildir til að fylgja eftir úrskurðum sínum þannig að fyrirtækin framfylgi eða hlíti þeim.

Síðan er annað sem menn hafa líka velt fyrir sér og getur tekið mjög langan tíma fyrir neytandann. Þegar Neytendastofa er loksins búin að úrskurða, þar hafa verið frekar fáir starfsmenn, þá liggur úrskurðurinn fyrir og næsta mál er að vísa málinu til áfrýjunarnefndar. Það getur tekið ákveðinn tíma líka og það er í rauninni ekki fyrr en niðurstaða liggur fyrir frá áfrýjunarnefndinni að mögulegt er að fara með málið fyrir dómstóla. Alltaf eru sektirnar lágar.

Ég held að það sé brýnt að nefndin fari virkilega vel yfir það hvort ekki sé nauðsynlegt að Neytendastofa geti lagt á mun hærri sektir og horfi þá til dæmis til þeirra stjórnvaldsúrræða sem Samkeppniseftirlitið hefur og kanni hvort Neytendastofa eigi að fá sambærilegar valdheimildir eða hvort þessar tvær stofnanir verði jafnvel sameinaðar og fari með þessi mál, eins og menn hafa talað um í Bretlandi. Við beitum okkur af sama krafti hvað varðar neytendalán eða neytendavernd á fjármálamarkaði og við höfum gert varðandi samkeppnismálin. Ég held að það megi færa mjög góð rök fyrir því að úrskurðir varðandi samkeppnismál séu neytendamál í sjálfu sér. Þetta eru mjög hliðstæð mál hvað það varðar. Samkeppniseftirlitið hefur margítrekað sýnt að það getur svo sannarlega vaðið í málin og fylgt þeim eftir.

Ég vil jafnframt taka undir með ráðherranum að það sé brýnt að taka á smálánunum. Hérna er ákveðin tillaga. Það hefur verið gerð tilraun til þess áður. Við höfum fengið margar athugasemdir við þær tillögur sem hafa áður komið inn í þingið. Ég held að staðan sé orðin þannig að það er orðið brýnt að við förum að samþykkja lagabreytingu sem getur tekið á þessu og látum á það reyna hvort það virki frekar en að við séum að velkjast með þetta í þinginu. Ég held að allir stjórnmálaflokkar séu mjög ósáttir við hvernig þessi fyrirtæki hafa hagað sér. Það er ekkert siðlegt við starfsemi þeirra. Við lesum dag eftir dag greinar um að „viðskiptavinahópur“ þeirra samanstandi af veikustu einstaklingunum í samfélaginu. Það er orðið algjörlega tímabært að mínu mati að afgreiða þessa lagabreytingu óháð því hvort við munum ná samstöðu um annað í þessum lögum. Á þessu þarf að taka.

Svo að ég komi aðeins aftur að fasteignalánum, af því að við erum búin að tala um verðtryggðu lánin, mundi ég vilja tala um þau almennt vegna þess að það sem við erum að sjá gerast núna er að einstaklingar eru enn á ný að leita út úr þessu verðtryggða umhverfi og hafa leitað mikið til fjármálafyrirtækja sem bjóða upp á óverðtryggð lán. Það er lítil eftirspurn eftir lánum hjá Íbúðalánasjóði. Ég held að það sé að verða æ brýnna að við förum að setja almenn ákvæði varðandi fasteignalánin, hvort sem þau fara inn í svona lagabálk eða sérlagabálk, eins og er verið að tala um í greinargerðinni að sé væntanlegt frá Evrópusambandinu og er búið að vera væntanlegt mjög lengi. Ég held að það sé orðið tímabært að við tökum sjálf á þessu.

Þetta varðar hluti eins og tímalengd lánanna varðandi veðhlutfallið því að eins og kom fram í skýrslu Samtaka fjármálafyrirtækja um verðtrygginguna þá er náttúrlega mjög óvarlegt fyrir efnahagslegan stöðugleika að við lánum verðtryggð jafngreiðslulán til allt að 40 ára með mjög lága greiðslubyrði í upphafi þannig að fyrstu 20 árin borgar fólk nánast bara vexti, það borgar ekkert inn á höfuðstólinn og er með mjög háa veðsetningu. Ég held við verðum að horfast í augu við það að reynslan á að hafa kennt okkur að við þurfum að setja ramma utan um þetta.

Ég hef margoft bent á dönsku fasteignalánalöggjöfina. Þar er fleira sem er mjög markvert að mínu mati. Þar eru til dæmis ákvæði varðandi, ekki bara greiðslumatið eins og ég var að segja heldur um hvernig eigi að meta verðmæti veðsins sjálfs sem er undirliggjandi. Það sem ég mundi telja að ætti líka að vera í þess háttar lögum og jafnvel í þessum lagabálki eru greiðsluúrræði sambærileg til dæmis við það sem Íbúðalánasjóður hefur boðið upp á í mjög langan tíma gagnvart þeim sem taka fasteignalán hjá þeim þannig að það séu sömu leikreglurnar óháð því hvort fólk taki lán hjá Íbúðalánasjóði eða öðrum fjármálafyrirtækjum. Þetta vantar hér inn.

Síðan stoppa ég líka við kröfuna um greiðslumat eða lánshæfi. Ef fólk uppfyllir ekki kröfur um lánshæfi eða fer í gegnum greiðslumatið hjá viðkomandi fjármálafyrirtæki þá segir að það eigi ekki að fá lán, en ef það getur hins vegar komið með veð eða aðrar tryggingar þá eigi að vera hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að viðkomandi sé ekki fær um að standa í skilum. Þetta set ég mjög stórt spurningarmerki við vegna þess að tilhneigingin hefur verið sú hjá okkur að skrifa upp á fyrir aðra eða lána veð og stjórnvöld hafa undanfarin ár átt í miklum vandræðum með að takast á við þennan svokallaða lánsveðshóp. Fólk sem hefur að einhverju leyti uppfyllt greiðslumat en kannski ekki fyrir jafnháar upphæðir og afborganirnar eru hefur fengið lánað veð og síðan þegar það hefur lent í örðugleikum með að borga af lánum sínum þá eru mjög skýr ákvæði og ábendingar sem ég hef tekið undir varðandi eignarrétt lánveitanda.

Alþingi reyndi í tengslum við greiðsluaðlögun að tryggja það að lánsveð mundu falla undir greiðsluaðlögun. Í héraði og Hæstarétti var sagt að það gengi ekki samkvæmt stjórnarskrá. Því sama hafa lífeyrissjóðirnir haldið fram gagnvart 110%-leiðinni.

Nú hafa þúsundir heimila, þúsundir ungra fjölskyldna, ekki fengið úrlausn sinna mála á grundvelli þess að þau fengu lánað veð. Við eigum að velta fyrir okkur hvort það eigi að vera svo auðvelt í sjálfu sér að komast undan því að vera ekki fær um að standa í skilum með það lán sem tekið er bara af því að einhver er tilbúinn „að lána veð“ en síðan kemur í ljós þegar á reynir að sá sem lánaði veðið sá aldrei fyrir sér að einhvern tíma yrði gengið að því.

Annað dæmi sem bent var á varðandi Noreg er að Norðmenn eru að koma sér upp sameiginlegum gagnagrunni þar sem lánveitendur eru skikkaðir til þess að tékka á því hvort viðkomandi lántaki sé með raðgreiðslusamninga og annað slíkt þannig að samantekt sé á einum stað hvað þetta varðar.

Að lokum, (Forseti hringir.) þótt ég sé búin að fara í gegnum marga punkta þá velti ég fyrir mér hvort ekki þurfi að skilgreina muninn á lánasamningum og leigusamningum í lögum hér (Forseti hringir.) því að fjármálafyrirtæki virðast stundum vera sannfærð um að um lán sé að ræða en stundum leigusamning. Þarf löggjafinn ekki (Forseti hringir.) að skera úr um hvað eru leigusamningar og hvað eru lánasamningar?