144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Málefni rammaáætlunar heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Þau voru færð þangað, sett undir það ráðuneyti með forsetaúrskurði um verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins við tilurð þess ráðuneytis. Ráðuneytið heitir, þótt hæstv. ráðherra hafi kannski ekki áttað sig á því, umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Vernd, rannsóknir og trygging þess að auðlindir séu nýttar með sjálfbærum hætti eru verkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Það er dapurlegt að hafa ráðherra sem mælir fyrir frumvarpi sem umhverfis- og auðlindaráðherra en leggur til að vísa því í aðra nefnd.

Samkvæmt nefndaskipan Alþingis, forsetaúrskurði um verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins og samkvæmt eðli máls á þetta heima í umhverfis- og samgöngunefnd. Það er þannig. Ég tel að engin efnisleg, haldbær rök önnur en þá pólitík standi fyrir því að vísa þessu annað. Pólitíkin er væntanlega sú (Forseti hringir.) að draga úr vægi umhverfismálanna, draga úr vægi (Forseti hringir.) verndarsjónarmiðanna og þau eru flutt hér af (Forseti hringir.) ráðherra sem á að heita (Forseti hringir.) ráðherra í umhverfis- (Forseti hringir.) og auðlindaráðuneyti.