149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[19:25]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætlaði bara að koma stutt upp. Þetta þingmál kom til okkar í velferðarnefnd á seinasta þingi. Eins og hæstv. heilbrigðisráðherra fór yfir kom þar í ljós að ekki hafði verið haft nægilega gott samráð og var málið þá sent aftur í ráðuneytið. Ég fagna þeirri ákvörðun að taka málið upp aftur og fara í samráðsferli. Þetta er ótrúlega gott og það er rosalega mikilvægt að við gerum þetta. Ég vona að við séum meira að komast í vanann að hafa þann hátt á þegar verið er að vinna þingmál í ráðuneytunum, að það sé haft alvörusamráð. Ég tel mjög jákvætt skref og gott að við séum að gera það á þann hátt og hlakka til að skoða þetta mál í velferðarnefnd. Ég vonast til að sjá uppbyggilegri umræðu um þetta mál þar þar sem margir gestir sem munu koma fyrir nefndina hafa fengið að eiga þetta góða samráð við ráðuneytið.