145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

sjötíu ára afmæli Sameinuðu þjóðanna.

[10:32]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill vekja athygli hv. alþingismanna á því að í ár fagna Sameinuðu þjóðirnar 70 ára afmæli. Undir lok nýliðins septembermánaðar komu þjóðarleiðtogar saman í höfuðstöðvum samtakanna í New York til að samþykkja ný sjálfbær þróunarmarkmið sem leysa munu af hólmi þúsaldarmarkmiðin svonefndu.

Við upphaf septembermánaðar sótti forseti Alþingis 4. heimsráðstefnu þingforseta sem haldin var í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Á dagskrá ráðstefnunnar var meðal annars umræða um hlutverk þjóðþinganna við að ná hinum nýju þróunarmarkmiðum. Fram kom í samtölum forseta við aðstoðarframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að hlutverk löggjafarþinganna er veigameira en var í tengslum við þúsaldarmarkmiðin.

Vegna þessara tímamóta verður alþingismönnum boðið á morgun til sérstakrar kynningar á Sameinuðu þjóðunum með áherslu á hin nýju þróunarmarkmið.