154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

Málefni aldraðra.

[13:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra Guðmundi Inga Guðbrandssyni fyrir að vera með okkur hér í dag í þessari mikilvægu sérstöku umræðu um málefni eldra fólks. Hver er raunveruleg staða eldra fólks á Íslandi í dag? 11.000 eldri borgarar skrapa botninn, eru í neðstu þremur tekjutíundunum, þar af 6.000 í sárri fátækt — 6.000. Hvað hefur verið gert til að taka utan um þennan þjóðfélagshóp? Ekki neitt, nánast ekki neitt. Fullorðið fólk dagar uppi á Landspítala löngu eftir að það er tilbúið til útskriftar því að það er ekkert sem grípur. Það hefur í engin hús að venda. Kjaragliðnun á launakjör allra almannatrygginga heldur áfram, kjaragliðnun sem telur nú í krónum 71.000 kr. á mánuði frá því rétt í kringum hrun. Við höldum áfram að halda þeim í skerðingu og halda þeim í fátækt vísvitandi. Við skulum ekki gleyma því að allt það sem á sér stað er að ráði sitjandi ríkisstjórnar og Alþingis Íslendinga. Allt sem við erum að ganga í gegnum sem er neikvætt í þessu samfélagi er mannanna verk.

Við skulum tala um 25.000 kr. skerðingarmörkin sem eru við lífeyrissjóðsgreiðslur eldri borgara. Það hefur ekki verið hreyft í rúm tíu ár. Í rúman áratug hefur þetta ekki hreyfst, hvort sem hefur verið um að ræða óðaverðbólgu eða brjálæðisvexti sem við erum að takast á við í dag. Það er engu líkara en að eldra fólk sé bara þegar komið sex fetunum neðar í augum þessarar ríkisstjórnar.

Ég velti því fyrir mér þegar verið er að tala um hvað það er mikið gert — 18 aðgerðir sagði hæstv. ráðherra þegar hann var hér á risafundi Landssambands eldri borgara á Hilton Reykjavík Nordica hér á dögunum. Ég spurði eldra fólkið sem troðfyllti salinn hvort þau hefðu tekið eftir einhverju jákvæðu sem hefði komið út úr öllum þessum aðgerðaáætlunum en þau höfðu ekki gert það. Þannig að mikil er sú mýflugumynd ef það er ekki einu sinni eftir því tekið hvað er verið að gera. Þó er inni í þessum aðgerðaáætlunum t.d. að hækka frítekjumark vegna lífeyrissjóðsgreiðslna, en það bólar ekkert á því. Það er eitt af því marga sem ekkert bólar á. Og hvar skyldi hún vera stödd, þessi gæðaeftirlitsstofnun velferðarmála? Og hvar eru þessir tveir símsvarar á island.is sem eiga að koma í staðinn fyrir hagsmunafulltrúa eldra fólks sem allt Alþingi samþykkti einróma í júní 2021, þar á meðal hæstv. ráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson? En þessi hagsmunafulltrúi aldraðra, sem myndi kortleggja einangrun og stöðu og bágindi þeirra sem þyrftu á að halda, er ekki sýnilegur. Honum hefur þegar verið fleygt í ruslið. Ég hef ekki heyrt um það eitt einasta orð að það standi til að standa við sviknu loforðin sem voru gefin hér á Alþingi í júní 2021.

Það er sárara en tárum taki að þurfa að standa hér og segja að við séum líka að skrapa botninn meðal allra OECD-landanna hvað lýtur að fjármagni sem veitt er í málaflokkinn. Það er líka sárara en tárum taki að tala um það endalaust að eldra fólk eigi nú aldeilis að lifa góðu lífi í ellinni. Það er rangt. Það er kvíðið, það er einmana og í hverjum einasta mánuði finnast tveir dánir eldri borgarar heima hjá sér sem enginn hefur vitað um að væru dánir. Það eru um 25 eldri borgarar sem deyja einir heima á hverju einasta ári. Hvar eru nú gæðin sem á að veita þessu fólki og hver er það sem ber ábyrgð á því? Efri árin eiga að vera gæðaár. Efri árin eiga ekki að vera kvíði, einangrun, einmanaleiki og ótti við lífið, vanlíðan og fátækt. Það er skömm að stjórnvöldum sem koma svona fram við okkar elsta aldurshóp sem er að ganga sitt síðasta æviskeið. Það er skömm að því að stjórnvöld skuli ekki taka utan um þegnana og gefa okkur öllum kost á því að lifa í okkar fallega landi með reisn.

Þess vegna vildi ég gjarnan fá að vita: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að afsaka þá ömurlega nöturlegu stöðu sem þúsundir aldraðra búa við í dag á meðan er verið að skipa í nefndir og ráð og stýrihópa og koma með einhverjar fallegar skriflegar klausur á pappír? Hvernig hjálpar það gömlu fólki í dag?