140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

skattur á umhverfisvænt eldsneyti.

190. mál
[17:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ástæða þessarar fyrirspurnar er að þegar maður fylgist með umræðu um þróun með vistvænt eldsneyti á bíla og þær breytingar á bílum sem þar þurfa að koma til, finnst manni umræðan oft staðnæmast við það að menn treysta sér einhvern veginn ekki í verkefnið. Það virðast vera ýmsar ástæður sem skýra það. Til að mynda er aðeins hægt að kaupa metan á tveimur stöðvum og þær eru báðar á höfuðborgarsvæðinu þó að vissulega standi til að opna stöð á Akureyri, og er kannski nýbúið að því, og í Reykjanesbæ. Aðgangurinn er að minnst kosti afar takmarkaður. Víða um land þar sem áhugi á þessu treysta menn sér ekki í verkefnið.

Það er líka annar þáttur sem veldur því að menn fara ekki af stað með breytingar á bílum sem eru kostnaðarsamar þó að veittur sé stuðningur við breytingar á ákveðnum fjölda bíla. Það er óttinn við að allt í einu verði lagðir skattar á þessa bíla. Þess vegna fer ég fram með þessa fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra, í fyrsta lagi til að fá yfirlit yfir skattlagninguna í dag. Hún er auðvitað nánast engin eins og við þekkjum, þar er fyrst og fremst um að ræða virðisaukaskatt. Í öðru lagi hvort hægt sé að fá yfirlýsingu um að ekki verði skattlagt með öðrum hætti í til að mynda þrjú eða fimm ár eða jafnvel lengri tíma. Ég veit að í einstaka öðrum löndum hafa verið gefin slík fyrirheit í von um að búa til þann hvata að fleiri og fleiri kaupi sér slíka breytta bíla eða láti breyta bílum sínum.

Ég hef mér til fulltingis tvö verkefni, eitt er verkefni nemenda við Háskólann í Reykjavík, Gunnars Steingrímssonar og Kristjáns Helga Theodórssonar um rafmagnsbíla, og lokaverkefni Valgerðar Ögmundsdóttur frá Háskólanum á Bifröst um metan. Mér sýnist á gögnum þeirra að staðan sé sú í dag að í landinu séu um það bil 550 tvinnbílar, 235 metanbílar og 14 rafmagnsbílar, en árið 2001 voru rafmagnsbílarnir sjö þannig að ekki hefur orðið mikil fjölgun þar.

Þess vegna finnst mér mikilvægt að fá fram stefnu ríkisstjórnarinnar og ráðherra í því hver framtíðarskattlagning verður. Ef yfirlýsing kæmi um að þessu yrði ekki breytt á næstu árum held ég að það yrði jákvæður hvati fyrir menn til að færa sig yfir í þetta. Við flytjum inn eldsneyti fyrir meira en 50 milljarða. Það væri mjög áhugavert ef við gætum nýtt endurnýjanlega orku okkar í mun meira (Forseti hringir.) mæli en við gerum í dag. Ég held að nýtingin sé um 1% í samgönguhlutanum á meðan 70% af frumorkunotkun okkar (Forseti hringir.) er endurnýjanleg.