140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan.

238. mál
[16:15]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, það gerir það. Ég bjó mig ekki undir umræðu um samgöngur á Vestfjörðum eða við norðanverðan Breiðafjörð en ég er hér með kostnaðarmat eftir Gunnlaug Pétursson, sem er einn aðili þessa máls, sögunnar endalausu á þessu svæði, og get sýnt hv. þingmanni það. Það liggur líka fyrir einhvers konar mat frá Vegagerðinni á einhverjum af þessum kostum. Um þær tölur er svo efast og deilt, eins og hann þekkir og fleiri hér í salnum, þetta er auðvitað heilmikið mál.

Til er sú skoðun að göngin undir Hjallaháls, sem ekki einungis eru skynsamleg til frambúðar heldur mundu þegar allt er metið — þegar náttúruverðmæti og landgæði á þessu svæði eru metin — kosta síst meira en aðrir kostir sem nefndir hafa verið og menn hafa hugleitt og jafnvel gert ráð fyrir.