139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

staða viðræðna Íslands við ESB.

[14:54]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir umræðuna sem ég held að sé þörf. Ég get tekið undir það að vissum blekkingum var beitt fyrir kosningar árið 2009, þær kosningar sem af einhverjum dularfullum ástæðum fóru að snúast að mestu um hugsanlega aðild að ESB.

Aðild var af mörgum, ekki öllum, kynnt sem skjótfengin töfralausn og nýr gjaldmiðill átti að vera rétt innan seilingar. Aðild að ESB er ekki „kvikk fix“ á vanda Íslands. Það eru líka vandamál í Evrópusambandinu og vandi okkar mun ekki gufa upp þótt við göngum þar inn, hann þurfum við að leysa sjálf. Ferlið er þó farið í gang, hvað sem mönnum finnst um það, og ég held að við Íslendingar, íslensk stjórnsýsla og íslenska þjóðin, munum hafa gott af ferlinu sjálfu.

Eitt af því sem gagnrýnt er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er skortur á formfestu og nokkuð sem mætti kalla hrærigraut í stjórnsýslu, stjórnmálum og viðskiptalífi. Ein helsta gagnrýni Íslendinga í gegnum tíðina á ESB er einmitt skrifræðið sem óneitanlega fylgir sambandinu og ég held að við hefðum gott af því að krydda þjóðarsálina, þótt ekki væri nema með broti af því skrifræði og aga sem fylgir Evrópusambandinu.

Glasið getur annaðhvort verið hálftómt eða hálffullt. Það er undir okkur komið hvernig við túlkum það og hvernig við ætlum að nýta okkur þetta ferli til hagsbóta fyrir íslenska þjóð. Margt í regluverki ESB væri til bóta fyrir íslenska hagsmuni, óháð því hvort við göngum að lokum í sambandið eður ei. Ég óska þess að við nýtum bæði þann tíma sem aðildarferlið tekur og þá fjármuni sem sambandið vill láta okkur í té vegna umsóknarinnar til hagsbóta fyrir okkur, íslensku þjóðina, fyrir landið okkar. Mér finnst að ferlið mætti vera opnara og að þjóðin fengi fleiri tækifæri til að fylgjast með. Annað skapar tortryggni. Og af því að við vorum aðeins að ræða um (Forseti hringir.) RÚV áðan væri upplagt að ríkissjónvarpið tæki sig til og flytti af þessu fréttaþætti. (Gripið fram í.)