140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

samningar um sölu Byrs.

[16:14]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur hver þingmaðurinn á fætur öðrum komið upp með mjög einfalda ósk til hæstv. forseta um að þingheimur fái hlé til að kynna sér mikilvæg gögn sem honum hafa ekki áður verið sýnd. Mér finnst mjög einkennilegt að hæstv. forseti vilji ekki verða við svo einfaldri bón og ég skil reyndar ekki hvernig hæstv. forseti getur komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að hefja 3. umr. um málið þegar svo mikilvægar upplýsingar sem hér hafa verið lagðar á borðið eru loksins að koma fram.

Ég vil líka spyrja hæstv. forseta: Hvaða asi er á þessu máli? Samkvæmt starfsáætlun þingsins átti 3. umr. um frumvarp til fjáraukalaga ekki að vera fyrr en 30. nóvember. Í dag er 16. nóvember. Hvers vegna er þessi asi? Ég held að við höfum nógan tíma til að ræða þetta mál, af hverju er ekki gert hlé svo menn geti farið yfir það? Ég vil gjarnan fá skýringar hjá virðulegum forseta á því hvers vegna er búið að breyta starfsáætlun og flýta málinu svona mikið eins og hér er gert.