141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hér var áðan nefnt að þeirri umræðu sem sett var á dagskrá kl. 14 hefur eiginlega verið þjófstartað og gefur það mér tilefni til að leggja örfá orð í belg. Ég held að niðurstaðan á laugardaginn hafi einfaldlega sýnt að sú skoðun sem hefur verið uppi innan meiri hlutans á þingi, að það ætti að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, verður að veruleika, þ.e. meiri hlutinn mun að sjálfsögðu leggja fram frumvarp sem verður byggt á tillögum stjórnlagaráðs. Við höfum ekki enn séð frumvarpið þannig að við vitum ekki um hvaða frávik verður að ræða, hvað breytingar verða gerðar áður en frumvarpið verður lagt fram, en það verður þá óhjákvæmilega eitthvað sem við þurfum að fjalla um hér í vetur.

Við eigum auðvitað að gera það á þeim forsendum og á grundvelli þeirra skyldna sem á okkur eru lagðar sem þingmenn. Við höfum bæði skyldu og rétt til að leggja fram tillögur og sjónarmið varðandi allar boðaðar breytingar og niðurstaðan í þessum sal ræður því hvað út úr því kemur. Síðan eru kosningar í vor og þá munu allir þeir stjórnmálamenn sem hér eru og þeir flokkar sem hér eiga fulltrúa standa frammi fyrir kjósendum sínum (Gripið fram í.) og þurfa eðlilega að standa skil á afstöðu sinni.

Ég verð að segja að þrátt fyrir að atkvæðagreiðslan á laugardaginn hafi sýnt skýran meiri hluta hjá þeim minni hluta sem tók þátt í kjörinu bindur það að mínu mati ekki hendur mínar eða hæstv. utanríkisráðherra eða nokkurs annars í þessum sal. (Forseti hringir.) Við stöndum áfram ábyrgir fyrir því að ganga þannig frá stjórnarskrárbreytingum að við séum sannfærðir um (Forseti hringir.) að við séum að gera rétt.