141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar á laugardaginn sendir skýr skilaboð til Alþingis um að almannahagsmunir en ekki sérhagsmunir eigi að liggja til grundvallar stjórnskipan landsins. Þessa hagsmuni má draga saman í eina setningu: Kröfu um aukið jafnrétti og lýðræði.

Einn mikilvægasti lærdómur atkvæðagreiðslunnar er að nú liggur fyrir skýr mælistika til að nota á löggjöf um nýtingu náttúruauðlinda í þjóðareign. Það er klárt að breytingar til dæmis á lögum um fiskveiðistjórn verða að uppfylla eftirtalin þrjú meginskilyrði auðlindaákvæðisins, þ.e. að nýtingarrétti sé úthlutað gegn fullu gjaldi til tiltekins hóflegs tíma í senn og á jafnræðisgrundvelli. Gagnvart þessum skilyrðum hljótum við að meta núverandi fyrirkomulag fiskveiðistjórnar og mismunandi útfærslur sem fram hafa komið til breytinga á því. Það þurfum við hins vegar að gera af yfirvegun og ég tel rétt í því efni að kalla til verks breiðan hóp sérfræðinga, jafnt innlenda sem erlenda á sviði auðlindastjórnunar.

Einnig er ljóst að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar á laugardaginn varðandi spurninguna um jafnt vægi atkvæða dregur fram andstæð sjónarmið íbúa eftir búsetu þeirra. Niðurstaðan er engu að síður skýr. Tveir þriðju kjósenda vilja jafnt vægi atkvæða og Alþingi verður að virða þá niðurstöðu. Leiðin til samkomulags og breiðrar sáttar er ekki að snúa meirihlutaviljanum á haus heldur virða hann á sama tíma og við bindumst samtökum um markvissa og raunhæfa áætlun um að jafna aðstöðumun íbúa landsins hvað varðar aðgengi að grunnþjónustu, menntun, nauðsynjavörum og sómasamlegum samgöngum.

Meginniðurstaðan er skýr. Það verður forgangsverkefni Alþingis í vetur að ná breiðri samstöðu um breytingar á stjórnarskránni í samræmi við þann skýra vilja kjósenda sem birtist á laugardaginn.