150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

sviðslistir.

276. mál
[16:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var alveg sannfærð um að við fengjum að sjá einhver dansspor en það var ekki svo gott. (LE: Árshátíðin.) Já. Varðandi tillögu hv. þingmanns um almenna myndlistarkennslu og að allir eigi kost á henni mun ég skoða það mjög gaumgæfilega vegna þess að eitt af því sem við sjáum ef við lítum á viðmiðunarstundatöflu á grunnskólastiginu er að við uppfyllum ekki þá skyldu, hvorki varðandi verkgreinar né listgreinar. Ég tel að þetta sé ein af ástæðum þess að ekki sé jafn mikil aðsókn í starfsnám á Íslandi og í viðmiðunarlöndum. Það eru um 30% sem klára starfsnám á Íslandi en í Noregi og annars staðar í Evrópu eru það um 50%. Ég held að þetta skýri líka af hverju er svona mikið brotthvarf á framhaldsskólastiginu. Allt sem tengist því að styrkja og efla listgreinar á landinu er því mjög jákvætt. Ég hef ekki séð mál hv. þingmanns og finnst því ekki skynsamlegt af mér að skuldbinda mig algjörlega hér og nú en ég mun líta á það jákvæðum augum og allt það sem við erum að gera til að efla listsköpun í landinu. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni þegar hann nefnir að framtíðin sé þarna. Hún er í nýsköpun og skapandi greinum og hún er líka í miklu samstarfi milli listgreina og milli tæknigreina vegna þess að þar verður nýsköpun. Þar er verið er að gera eitthvað.

Varðandi samanburðinn erum við að kortleggja mismunandi stuðning og stuðningskerfi listgreina. Við erum líka að horfa á aukið samstarf á milli listgreina og skapandi greina og jafnvel að setja á laggirnar vettvang þess efnis til að ná betur utan um alla tölfræði, allan stuðning, kynningu og annað slíkt. Ég lít svolítið á þetta frumvarp og vona að sjálfsögðu að það nái framgangi sem liður í því að efla alla þá umgjörð.