138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

21. mál
[13:53]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég flyt frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007. Þetta er svokallað nektardansfrumvarp. Þó að titillinn beri þess kannski ekki beint merki fjallar málið um það. Flutningsmenn að þessu frumvarpi ásamt þeirri sem hér stendur eru eftirtaldir hv. þm.: Atli Gíslason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Eygló Harðardóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Þuríður Backman. Þessir hv. þingmenn flytja þetta ásamt þeirri er hér stendur.

Frumvarpið er ótrúlega knappt í texta. Það eru einungis tvær greinar og 1. gr. hljómar svo, með leyfi forseta:

„2. og 3. málsl. 4. mgr. 4. gr. laganna falla brott.“

2. gr. er svona:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Hér er um það fjallað að fella ákveðna hluta ákveðinnar greinar í lögunum á brott. Það hefur talsverðar afleiðingar að gera það. Málið fjallar sem sagt um að fella á brott ákveðinn lið í 4. gr. og þegar búið er að gera það er alveg fortakslaust bannað að vera með nektardans á veitinga- og skemmtistöðum. Í greinargerðinni kemur fram að í frumvarpinu sé lagt til að fella á brott þessa undanþáguheimild til nektarsýninga í atvinnuskyni á veitingastöðum og eftir stæði þá fortakslaust bann við því að bjóða upp á nektarsýningar eða gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum erum.

Hér kemur líka fram, virðulegur forseti, að þetta mál var fyrst flutt í þessu formi á 136. löggjafarþingi. Málið fór þá til meðferðar í allsherjarnefnd og var afgreitt 30. mars sl. Nefndin mælti þá með því að frumvarpið yrði samþykkt með þeirri breytingu að lögin tækju gildi 1. september 2009 til þess að hafa smáaðlögunartíma. Málið komst hins vegar ekki til 2. umr. og það var því endurflutt á 137. löggjafarþingi, þ.e. á sumarþinginu, en komst þá ekki heldur til 2. umr., enda voru önnur mál hér til umræðu í sumar. Frumvarp svipaðs efnis var lagt fram á 135. löggjafarþingi, en hlaut það ekki afgreiðslu. Þá var málið sent til nokkurs fjölda umsagnaraðila og alls níu umsagnir bárust. Fimm umsagnaraðilar lýstu yfir stuðningi við frumvarpið, Alþjóðahús, Jafnréttisstofa, Kvenréttindafélag Íslands, Kvennaathvarfið og Rauði kross Íslands. Þrír umsagnaraðilar tóku ekki afstöðu, Félag íslenskra stórkaupmanna, Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið. Einn aðili gerði ekki athugasemdir, Viðskiptaráð, þannig að það má segja að þeir sem komu með afstöðu voru samþykkir þessu frumvarpi og töldu það mjög til bóta.

Varðandi forsöguna, virðulegur forseti, var á 133. löggjafarþingi lagt fram frumvarp til laga um heildarendurskoðun laga nr. 67/1985, um veitinga- og gististaði, þar sem gert var ráð fyrir breyttri skilgreiningu veitingastaða. Frumvarpið varð að lögum nr. 85/2007, og samkvæmt þeim var felldur niður flokkurinn næturklúbbar sem samkvæmt eldri lögum gerði ráð fyrir að legðu aðaláherslu á áfengisveitingar og sýningar á nektardansi í atvinnuskyni. Með 4. gr. núgildandi laga eru svokallaðir umfangsmiklir áfengisveitingastaðir — þetta eru skrýtin orð, umfangsmiklir áfengisveitingastaðir — allir settir í einn og sama flokkinn. Á slíkum stöðum er hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti að gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem eru á staðnum, með þeirri undantekningu þó að ef jákvæðar umsagnir fást frá umsagnaraðilum samkvæmt 10. gr. laganna getur leyfisveitandi heimilað nektardans í rekstrarleyfi ef þess er óskað. Leyfisveitandi getur þá heimilað nektardansinn.

Það urðu nokkrar umræður um ákvæðið við 2. umr. um frumvarpið. Fulltrúar sveitarfélaganna sem komu þá fyrir samgöngunefnd upplýstu að þeir hefðu viljað fá staðfestan þann skilning sinn að nóg væri að einn umsagnaraðili legðist gegn því að nektardans yrði heimilaður í rekstrarleyfi veitingastaða til þess að synja mætti um leyfið. Það verður að segjast að sá skilningur er eðlilegur enda um undanþágu frá meginreglu að ræða og því réttast að skýra hana þröngt.

Frá þeim tíma hefur ríkt nokkur óvissa um rekstrarleyfi nokkurra staða á höfuðborgarsvæðinu sem höfðu óskað eftir heimild til að bjóða upp á nektardans í endurnýjuðum rekstrarleyfum sínum. Einn slíkur staður í Kópavogi kom fyrst til kasta leyfisveitanda, sem er sýslumaðurinn í Kópavogi. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu er lögboðinn umsagnaraðili um rekstrarleyfi veitingastaða og lagðist hann gegn því að leyfið yrði veitt með ýmsum rökum sem má lesa í fylgiskjali með frumvarpinu. Ég ætla ekki að fara neitt náið yfir það, en ég held að allir viti að þessir staðir tengjast ýmsu sem lögreglan hefur áhyggjur af. Á grundvelli umsagnar lögreglustjórans synjaði sýslumaðurinn í Kópavogi þessum stað um leyfið, en sú stjórnvaldsákvörðun var kærð til hæstv. dómsmálaráðherra á þeim tíma. Hæstv. dómsmálaráðherra þess tíma felldi úrskurð í málinu 15. maí 2008. Þeir sem hafa áhuga á geta lesið þann úrskurð sem fylgir með frumvarpinu.

Í úrskurði dómsmálaráðuneytisins eru umsagnir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem á endanum urðu tvær, sagðar hafa verið haldnar verulegum efnisannmörkum sem leiddu til ógildingar ákvörðunar sýslumannsins í Kópavogi. Þá beindi ráðuneytið því til sýslumannsins að hann leitaði eftir nýrri umsögn lögreglustjórans áður en hann tæki veitingu umrædds leyfis til meðferðar að nýju. Málinu lyktaði með því að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út nýja umsögn þar sem í ljósi úrskurðar dómsmálaráðuneytisins þótti ekki fært annað en að mæla með því að leyfið yrði veitt. Þarna urðu ákveðin vatnaskil, virðulegur forseti. Á sama tíma hafði borgarráð Reykjavíkurborgar til umfjöllunar endurnýjuð leyfi fyrir tvo veitingastaði í Reykjavík þar sem báðir staðirnir óskuðu eftir því að fá heimild til að bjóða upp á nektardans. Borgarráðið hafði áður samþykkt að mæla ekki með því að slík leyfi yrðu veitt. Þegar úrskurður dómsmálaráðuneytisins lá fyrir þótti borgarráði hins vegar ekki annað fært en að veita jákvæða umsögn og gerði það með bókun á fundi sínum 28. ágúst 2008. Ég ætla, virðulegur forseti, að leyfa mér að vitna beint í þessa bókun af því hún er svolítið merkileg. Ég ætla að vitna beint í texta bókunar borgarráðs Reykjavíkur, með leyfi virðulegs forseta:

„Nýlegur úrskurður dómsmálaráðuneytisins varðandi nektardans á veitingastaðnum Goldfinger í Kópavogi vekur áleitnar spurningar um hvort 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/ 2007, sem kveður á um bann við slíkri starfsemi, sé gagnslítil. Í borgarstjórn ríkir þverpólitísk samstaða um að vinna beri gegn klámvæðingu, því skorar borgarráð á Alþingi Íslendinga að breyta lögum þannig að sem fyrst fáist skýrar lagaheimildir til að koma í veg fyrir starfsemi nektardansstaða.“

Hér er algjörlega skýrt, virðulegur forseti, að það var þverpólitísk samstaða í borgarráði, meðal stjórnmálaflokkanna sem bera ábyrgð á lífinu í Reykjavíkurborg. Þeir vildu ekki að leyfður yrði nektardans en gátu í ljósi stöðu málsins ekki annað en fallist á beiðnina. Það er ákall frá borgarráði til Alþingis Íslendinga að kveða skýrar á um þessi atriði í lögum þannig að hægt sé að koma því þannig fyrir að ekki sé hægt að bjóða upp á þá klámvæðingu og þennan nektardans sem hefur verið boðið upp á.

Eins og málsmeðferð og samfélagsumræðan um þessi rekstrarleyfi hefur verið hefur ríkt mjög mikil óvissa um túlkun 4. gr. laganna og því er alveg bráðnauðsynlegt að skýra efni hennar. Þess vegna er hér lagt til að þetta undanþáguákvæði verði látið gufa upp, það falli brott og verði ekki til lengur. Að því gefnu verður alveg fortakslaust bann við því að bjóða upp á nektarsýningar eða gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á þessum stöðum eru.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að á árinu 2009 er alveg ljóst að geysilega mikil framför hefur orðið eiginlega í flestum ríkjum heims varðandi jafnréttismál og stöðu kvenna. Auðvitað ganga menn stundum áfram og taka svo eitt skref aftur á bak eins og gengur og gerist. Það var enginn nektardans á boðstólum í den tid, en hann kom til okkar og þó að ég sé nú frekar frjálslynd að eðlisfari er ég mjög ófrjálslynd gagnvart þessari nýjung, lýsi mig bara alveg mjög „ólíberal“ gagnvart því að staðir bjóði upp á nektardans. Ég get alls ekki fallist á að nektardansinn sem hér hefur verið stundaður flokkist undir list. Þó að það sé alltaf rosalega erfitt að flokka hvað er list og hvað ekki er það bara ekki þannig í mínum huga. Yfirleitt eru þetta frekar ungar konur, oftast konur sem eru í frekar slakri félagslegri stöðu og lenda í þessum aðstæðum sem svo aðrir nýta sér.

Ég vil líka segja að kannski eru fleiri fórnarlömb en þeir sem dansinn sýna, kannski þeir sem „dansins njóta“ ef svo má segja. Þótt ég ætli ekki að bera mikið blak af þeim aðilum er ljóst að oft fara menn vel við skál inn á svona staði og hugsa kannski frekar óskýrt, koma síðan út með straujuð kortin sín og þá er búið að taka út af þeim alveg gífurlega háar upphæðir. Viðkomandi aðilar hafa hugsanlega samþykkt þær upphæðir, eða ekki, a.m.k. hefur maður heyrt sögur af því að menn furði sig á því hvaða upphæðir komi til rukkunar síðar þannig að það má segja að það séu fleiri fórnarlömb en endilega þeir sem sýna dansinn.

Virðulegur forseti. Ég held að árið 2009 eigum við bara að taka þetta skref, þótt fyrr hefði verið, og koma því þannig fyrir að það sé ekkert undanþáguákvæði. Við eigum að bjóða hér upp á gott samfélag þar sem konur og karlar geta lifað saman í sátt og samlyndi án þess að bjóða upp á svona nektardans sem mér finnst mjög niðurlægjandi að mörgu leyti, sérstaklega fyrir konur.

Fleiri atriði koma upp í hugann þegar rætt er um veitinga-, gisti- og skemmtistaði. Það er annað mál sem ég er ekki að mæla fyrir hér en kemur þó alltaf öðru hvoru upp í hugann og ég hef gert að umtalsefni hér áður, þ.e. opnunartími skemmtistaða. Þar höfum við breytt lögum þannig að nú geta þeir verið opnir mjög lengi fram eftir og það er mál sem ég held að við ættum að skoða í fullri alvöru hvort ætti að breyta til baka. Ég held að það bjóði upp á talsvert mikla fíkniefnanotkun að hafa staðina opna svona lengi og er faktískt engum til gagns þegar upp er staðið. Það er nokkuð sem maður hefur alltaf haft bak við eyrað að beita sér í en kannski ekki komið í framkvæmd.

Virðulegur forseti. Þetta er það sem ég vildi segja um þetta mál. Að mínu mati er hægt að ganga frá því mjög hratt. Það er búið að margflytja það í þinginu. Það er búið að fá umsagnir. Allsherjarnefnd sem ég sat í á sínum tíma fékk aðila í heimsókn til viðræðna um þessi mál, frá lögreglunni og fleiri aðilum. Að mínu mati þarf ekki að liggja lengi yfir þessu. Ég held að það sé hægt að skvera því í gegn hratt ef vilji er fyrir hendi. Ég vona að það sé góður vilji til þess og mig grunar að hér sé að skapast þokkalega breið pólitísk samstaða um þetta mál, sérstaklega af því að við settum þarna inn ákveðið aðlögunarákvæði. Mér finnst eðlilegt að það sé eitthvert aðlögunarákvæði og mér finnst eðlilegt að nefndin sem fær þetta til umfjöllunar skoði hvort ekki sé rétt að gefa einhverjar vikur í aðlögun.