145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:19]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mikið er talað um það af hálfu stjórnarandstöðunnar að hún viti ekki tilgang þessa frumvarps. Tilgangur frumvarpsins er ítarlega reifaður í frumvarpinu sjálfu. Það þarf ekki annað en að lesa athugasemdir við frumvarpið til að komast að því hver tilgangurinn er. Hann er meðal annars sá að öll samskipti við erlend ríki séu samstillt og á einni hendi og í takt við utanríkisstefnu Íslands. Með þessu verður hagræðing og það verður mikil samlegð.

Ég ætla að biðja hv. þingmann afsökunar á því að ég kallaði fram í áðan og sagði að Þórir Guðmundsson hefði talað við 190 manns. Það er rangt, hann talaði við 179 sérfræðinga í skýrslu sinni. Ég þekki Þóri Guðmundsson mjög vel. Þar fer mjög vandaður maður, mikill fagmaður á sínu sviði. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún vantreysti þessum 179 aðilum sem hann ræddi við, hvort hún vantreysti Þóri Guðmundssyni við gerð skýrslunnar þar sem hún nefnir ýmsa aðra (Forseti hringir.) sérfræðinga en tekur ekkert tillit til þess að þessi skýrsla er ekki bara hugverk eins manns. Hann hefur á bak við sig 179 einstaklinga og fagmenn. Vantreystir hún Þóri Guðmundssyni?