150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

lax- og silungsveiði.

251. mál
[12:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykja það málefnalegar ástæður að vilja hafa nefndina jafn stóra og hún er, ekki vera að fjölga í henni, og breyta áherslunum við vinnuna, þ.e. að meiri fagmennska komi inn í hana. (JÞÓ: Sammála því.) Með fullri virðingu fyrir héraðsdómurum geta þeir á síðari stigum fengið að leika við þetta mál með sína sérþekkingu. Ef ágreiningur er uppi um arðskrármat er því einfaldlega skotið til dóms, en í megninu af þessu er enginn ágreiningur uppi vegna þess að þetta er unnið út frá tiltölulega þekktum breytum. Ég spyr á hvaða forsendum við eigum endilega að vera með löglærða manneskju í þessari vinnu ef við getum fengið aðgang að manneskju með aðra menntun og betri sem nýtist til þess verks sem liggur þarna undir. Á þeim grunni legg ég þetta fram. Ég tel að við fáum faglegri og betri vinnu með tilliti til þess verks sem við er að eiga, að leggja mat á virði þess sem í ánni þrífst eða veiðivatninu. Aftur með fullri virðingu fyrir héraðsdómurum tel ég fiskifræðinga, líffræðinga og aðra menntaða einstaklinga á þessum sviðum hæfari til þess en dómara. Það er mín hlutlæga sýn. Svo getum við tekið fyrir í bakherbergjum kenningar sem hv. þingmaður er með um undirdjúpin í pólitíkinni. Þetta hefur ekki farið þangað niður enn og ég vona að það geri það ekki.