141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

228. mál
[17:50]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hvað varðar þá tillögu hér um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka þá vil ég geta þess að þetta er búið að vera eitt baráttumála Vinstri grænna í mörg ár. Við höfum ítrekað flutt hér á Alþingi tillögur þess efnis, líklega í þrígang. Ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson, núverandi ráðherra, höfum flutt tillögur um þennan aðskilnað á allmörgum þingum án þess að þær næðu fram að ganga.

Einnig hafa á undanförnum missirum komið ályktanir frá flokksráðsfundum og landsfundum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að þetta væri gert. Ég minni á ályktun um aðskilnað fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi á flokksráðsfundi Vinstri grænna frá 25. febrúar 2012 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Flokksráð fagnar að ráðuneyti bankamála skuli vera komin á ábyrgð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og felur nýskipuðum ráðherra bankamála að flytja frumvarp til laga um aðskilnað starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka sem þingmenn flokksins hafa flutt endurtekið á fyrri þingum.“

Ég tel því að í sjálfu sér liggi fyrir nægar upplýsingar um það hvernig þetta skuli gert, hvernig viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi skuli aðskilin með lögum. Skýrslur liggja fyrir um mat á því og auðvitað sýnist þar sitt hverjum. En það er pólitísk ákvörðun að gera þetta. Ég tel þess vegna miklu réttara að það verði bara gengið beint í verkið og lögum breytt þannig að tryggja megi þennan aðskilnað. Það þarf ekki neina nefnd til að rannsaka það neitt frekar, þetta liggur fyrir. Það er pólitísk ákvörðun að það verði gert, eins og ég segi, og þetta hefur verið eitt af baráttumálum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þingmanna hennar. Mér finnst reyndar slæmt hvað þetta hefur lent í miklum undandrætti hjá núverandi ríkisstjórn hvað þetta varðar.

Frú forseti. Ég kom hingað upp til að árétta það að Vinstri hreyfingin – grænt framboð, þingmenn hennar, hafa ítrekað flutt hér þingmál um þennan aðskilnað. Þær upplýsingar liggja fyrir sem þarf til að þetta verði gert. Þess vegna eigum við að láta verkin tala og það á að flytja hér frumvarp um að staðfesta þennan aðskilnað með lögum. Ég er reiðubúinn að standa að því, frú forseti.