149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[19:36]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvar og margt áhugavert í því. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á, að mjög skemmtileg og góð nýsköpun hefur verið í mjólkurframleiðslu, fjöldi fyrirtækja hefur komið að því, en fjöldi fyrirtækja hefur líka gefið upp öndina í tilraunum til að vera í samkeppni við Mjólkursamsöluna. Það eru til ágætar lýsingar forsvarsmanna fyrirtækisins Örnu á Ísafirði, sem hv. þingmaður vísaði til, um hvernig það sé að eiga í samkeppni við risa eins og Mjólkursamsöluna í þessum efnum. Það er ekki auðvelt að kljást við fyrirtæki sem er með algjörlega yfirgnæfandi markaðsráðandi stöðu. Það er sjálfsagt að keppinautar slíkra fyrirtækja njóti verndar samkeppnislaga í þeim efnum. Það er í raun og veru það eina sem hér er verið að leggja til, að hætt sé að horfa til þeirrar undanþágu eða að þær undanþágur séu aflagðar sem hér er að finna.

Ég hlakka til ræðu hv. þingmanns á eftir. Ég hygg að hann muni fræða mig mjög vel um þær undanþágur (Forseti hringir.) sem eru í gildi frá samkeppnislögum í fyrirheitna landinu, Evrópusambandinu, og bíð þess bara í ofvæni.