135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

203. mál
[20:03]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi þakka fyrir að fá að taka til máls. Ég áttaði mig ekki á að ég var aðeins of seinn í umræðuna, en þetta er nú allt að koma, ég er að læra inn á þingsköpin og hvernig þetta virkar allt saman.

Ég vil þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir málefnalega umræðu og góð svör efnislega. Ég hefði kosið að þeir sem tóku þátt í umræðunni fyrir hönd Samfylkingarinnar hefðu rætt á sömu nótum — ég hafði alltaf á tilfinningunni að í þessum málum hefðu framsóknarmenn frekar staðið á bremsunni en sjálfstæðismenn hefðu stefnt í frjálshyggjuátt og talað fyrir markaðsvæðingu. En það setur að mér ugg þegar ég átta mig á því að nú er það Sjálfstæðisflokkurinn sem þarf að standa í fæturna gagnvart Samfylkingunni.

Baunað var á stjórnarandstöðuna hér áðan og sagt að hún þyrfti á aðstoð að halda en ég væri alveg til í að fara yfir landbúnaðarmálin með þeim félögum, hv. þm. Árna Páli Árnasyni og Lúðvíki Bergvinssyni. En það er kannski ósanngjarnt af mér að nefna þá núna vegna þess að þeir eru farnir úr salnum.

Ég ítreka varnaðarorð mín. Ég átta mig á því að þessi verðtilfærsla og þetta verðmiðlunargjald er kannski barn síns tíma og það var óeðlilegt með vissar tegundir mjólkurvara að önnur væri dýrari en hin. (Forseti hringir.) En þá æski ég þess að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gæti þess að (Forseti hringir.) önnur varan verði áfram ódýrari, að þær hækki ekki báðar.