141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

beitarþol, landgræðsla og lausaganga búfjár.

[11:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil koma sauðkindinni til varnar í þessu máli (Gripið fram í.) sem hefur verið hér í landinu frá landnámi og haldið lífi í þjóðinni öldum saman. Það er dapurlegt að heyra það að í hugum sumra þingmanna skuli sauðkindin vera orðin að sérhagsmunum. (BirgJ: Það eru þeir sem eiga …)

Fé hefur fækkað verulega á liðnum árum. Um 1977 voru hér um 800 þús. fjár en eru í dag um 450 þúsund. En hvað sjá menn fyrir sér varðandi beitarhólf? Þau eiga vissulega rétt á sér á ákveðnum landsvæðum eins og til dæmis á Reykjanesi. En vilja menn hafa beitarhólf á hálendinu? Vilja menn sjá girðingar víða? Eru girðingar fallegar í umhverfinu? Er ekki fallegt að sjá fé koma af fjalli af afrétti á fögrum haustdögum? Hvað með kostnað af beitarhólfum? Hver á að greiða viðhaldið? Hver á að sjá um að bændur fái greitt fyrir tjón á girðingum? Það hefur orðið gríðarlegt tjón á girðingum austur í Mýrum vegna hreindýra. Bændur fá ekki bætt sitt tjón. Það verður að hugsa um þennan þátt þegar rætt er um beitarhólf.

Ég vil að lokum mótmæla því sem hv. þingmaður sagði hér áðan að beingreiðslur í sauðfjárrækt séu ávísun á rofabörð og landeyðingu. Það er alrangt.