144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ekki hafa farið fram hjá neinum þær miklu áhyggjur sem skólastjórnendur framhaldsskólanna hafa vegna þess mikla niðurskurðar sem boðaður hefur verið í nemendaígildum og að meina nemendum eldri en 25 ára aðgengi að framhaldsskólum.

Á nýafstöðnu þingi sveitarfélaga á Norðvesturlandi komu fram í erindi skólameistara Fjölbrautaskólans á Sauðárkróki miklar áhyggjur vegna fyrirhugaðs niðurskurðar til skólans sem mundi hafa mikil áhrif á námsframboð og starfsmannahald í framhaldinu. Ef tekið er dæmi af þeim skóla, þótt það eigi vissulega við um fleiri skóla á landsbyggðinni, þá hefur hann 333 nemendaígildi sem skorin verða niður um 17%, í 287. Í dag eru við skólann 110 nemendur 25 ára og eldri og eftir áramót verður að vísa þeim nemendum frá sem eru í bóknámi. Alls mun því nemendaígildum fækka um 92. Miðað við nemendatölur á síðasta ári þýðir það í stöðugildum við skólann að fækka þurfi stöðum þar um 15.

Landsbyggðarframhaldsskólar hafa verið að byggja mjög upp fjölbreytt nám á undanförnum árum, bæði í dreifnámi og fjarnámi. Þeir hafa einnig hagrætt og unnið mikið saman, sem hefur skilað sér í miklum árangri og sparnaði. Þeir hafa haft samstarf við símenntunarstöðvar og atvinnulífið. Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki býður t.d. margar nýjar brautir eins og slátrarabraut, plastiðnaðarbraut, fisktæknibraut og kvikmyndabraut, svo eitthvað sé nefnt.

Í framhaldi af þessu vil ég spyrja hv. þm. Ásmund Einar Daðason hvernig hann muni beita sér til að koma megi í veg fyrir það áfall og þá byggðaröskun sem blasir við framhaldsskólunum á landsbyggðinni að óbreyttu ef ekkert verður að gert.