143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

könnun á hagkvæmni þess að draga úr plastpokanotkun.

102. mál
[15:55]
Horfa

Flm. (Margrét Gauja Magnúsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar, sem ég er flutningsmaður að ásamt fleirum, þar sem skorað er á umhverfis- og auðlindaráðherra að láta kanna þjóðhagslega hagkvæmni þess að minnka plastpokanotkun hér á landi. Gerð verði könnun á því hvaða kostir eru hagkvæmir og í því tilliti verði litið til annarra ríkja í Evrópu þar sem markvisst hefur verið dregið úr plastpokanotkun.

Þessi þingsályktunartillaga verður auðvitað ekki til úr engu. Ég veit ekki hversu vel eða ítarlega þingmenn hafa kynnt sér landsáætlun um meðhöndlun úrgangs, frumdrögin, fyrir árin 2013 til 2024 en þar kemur margt áhugavert fram. Þetta eru drög sem hægt er að nálgast á vef umhverfisráðuneytisins frá því í júní 2012

Þar kemur margt skýrt fram, m.a. að við erum búin að undirrita ýmsa sáttmála varðandi úrgangsmál og endurvinnslu, til að mynda Ríó-yfirlýsinguna og Baselsamninginn, og við erum náttúrlega í EFTA-samstarfi og með EES-samning og tileinkum okkur stefnu Evrópusambandsins í úrgangsmálum. Síðast en ekki síst horfum við sérstaklega til Norðurlandanna hvað þessi mál varðar. Það er gaman að segja frá því að á flestum Norðurlöndunum er búið að banna svokallaða urðun. Til að útskýra það betur er urðun í rauninni sú aðferð sem við notum til að losa okkur endanlega við rusl, þ.e. að grafa það í jörðu.

Í þessari landsáætlun kemur margt mjög áhugavert fram, en ég bendi á að hún er eingöngu kynnt sem drög og er til umsagnar. Í kafla 3.2 um fyrirbyggjandi aðgerðir eru nefnd nokkur dæmi, með leyfi forseta:

„Sem dæmi um einfaldar fyrirbyggjandi aðferðir má nefna viðleitni til að draga úr óþarfri umbúðanotkun í dagvöruverslunum. Á síðustu árum virðist það t.d. hafa færst í vöxt að margfaldar umbúðir séu utan um matvöru af ýmsu tagi, svo sem grænmeti, þar sem jafnvel ein eða tvær paprikur eru lagðar í frauðplastbakka og filmuplasti vafið utan um, svo dæmi sé tekið.“

Ég veit að á höfuðborgarsvæðinu og í flestöllum sveitarfélög á landsbyggðinni er búið að koma pappa, öllum pappa, í ferli til endurvinnslu og ég held að eftir það geri fólk og íbúar sér þokkalega grein fyrir því hvað það er í rauninni mikið af plasti. Það held ég að stingi svolítið í augu landsmanna og þeir spyrji: Hvað með plastið næst?

Í landsáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir árin 2013 til 2024 segir einnig, með leyfi forseta:

„Áður en ráðist er í aðgerðir til að breyta hegðun fólks í úrgangsmálum þarf að leggjast í greiningu á því hvaða hegðun það er sem raunverulega þarf að breyta. Þannig kunna aðgerðir sem stuðla að breyttri kauphegðun að vera líklegri til að skila raunverulegum árangri í úrgangsmálum en aðgerðir til að auka flokkun úrgangs. Í þessu sambandi er mikilvægt að nálgast viðfangsefnið út frá lífsferilshugsun“ — þ.e. LC-greiningum — „og með tilliti til þeirrar forgangsraðar sem endurspeglast í úrgangsþríhyrningnum,“ sem svo er kallaður.

Þar koma blessaðir plastpokarnir okkar til sögunnar. Ég ætla að fá að segja hér í ræðupúlti ákveðnar tölulegar staðreyndir og sögur um plastpoka. Í dag er talið að fleygt sé um 70 milljón stykkjum af plastpokum, innkaupapokum, hérlendis. Það er töluvert magn fyrir ekki stærri þjóð en 320 þúsund manns, 70 milljón plastpokar. Það er segin saga og er upplifun þeirra sem sjá um úrgangsmálin hjá okkur þar sem ég þekki til á höfuðborgarsvæðinu, að í rauninni er orðið offramboð á plastpokum, sérstaklega í ljósi þess að nú er pappi settur beint ofan í tunnu. Áður fyrr var pappanum kannski pakkað í plastpoka og settur síðan í ruslatunnur. Nú er því ferli lokið og 30–40% af heimilissorpi fara beint ofan í sérstakar tunnur og því er ekki lengur þörf á öllum þessum plastpokum.

Ég reiknaði mér til gagns og gamans hvað ég sem þriggja barna móðir, með fimm manna fjölskyldu, eyði í plastpoka á ári ef ég kaupi þá í búð, miðað við þau innkaup sem þurfa að eiga sér stað á mínu heimili. Þetta eru 18–20 þús. kr. á ári. Það eru nefnilega ágætispeningar sem þarna liggja. Þá velta eflaust margir fyrir sér: Hvað um Pokasjóð og annað slíkt styrktarfyrirkomulag sem við höfum í íslensku samfélagi í kringum plastpokana? En það hafa náttúrlega ekki allar verslanir sett brot af þeirri fjárhæð sem kemur inn fyrir plastpokana í Pokasjóð og ég efast ekki um að hægt væri að finna einhverjar leiðir til að halda þeim sjóði áfram gangandi.

Mig langar einnig að benda á, sem kemur fram í landsáætlun um meðhöndlun úrgangs, að stefnan er sú að árið 2025 verði minna en 5% af rusli okkar landsmanna urðað, bæði heimilissorpi og því sem kemur frá atvinnulífinu. 5% er frábær árangur og ef við næðum því fyrir 2025 væri það alveg meiri háttar. Það er náttúrlega metnaðarfull stefna og vert markmið að stefna að en þá þurfum við líka að byrja að hugsa strax í lausnum og huga að því hvernig við ætlum að ná þessum markmiðum. Þar koma plastpokarnir svolítið sterkt inn af því að þeir sem slíkir og hvernig við notum þá móta svolítið hvernig við hugsum um úrgang og í hvaða farveg við komum honum.

Ég ætla að fá að vitna í kafla í 7.4.3 í landsáætluninni sem heitir Saga af plastpokum, með leyfi forseta:

„Innkaupapokar úr plasti hafa verið talsvert í umræðunni á alþjóðlegum vettvangi síðustu ár. Slíkir pokar eru dæmi um vöru sem er að mestu leyti óþörf, en að sama skapi einkar handhæg. Hver poki vegur ekki þungt í heildarmyndinni enda er þyngd venjulegs haldapoka ekki nema um 16 grömm. Engar tölur eru til um fjölda haldapoka sem Íslendingar nota á ári hverju“ — en hér er giskað á að hérlendis sé fleygt um 70 milljónum slíkra poka á hverju ári. — „Það gætu verið samanlagt um 1.120 tonn. Til að framleiða þessa poka þarf líklega um 2.240 tonn af olíu. Langstærstur hluti þessara plastpoka fer væntanlega í urðun með öðrum úrgangi, og á urðunarstað tekur niðurbrot pokanna nokkrar aldir eða jafnvel hátt í 1000 ár.“

Eitthvað af pokum sleppur síðan og það er í rauninni eitt stærsta vandamálið við plastpokana, ekki þeir sem eru urðaðir heldur þeir sem sleppa eða eins og segir hér: „Þeir sleppa út í veður og vind og eru síðan að velkjast árum, áratugum eða öldum saman á sjó og landi.“ Hefur sú sem hér stendur horft á heimildarmyndir um plastpokaeyjar sem eru að myndast í grunnsjávarbotnum Atlantshafs og Kyrrahafs og Indlandshafs.

Plastpokar geta gert síðan annan usla, dýr geta kafnað við að gleypa plast eða fá það utan um hálsinn. Þegar plastið brotnar niður í smærri einingar kemst það líka auðveldlega inn í fæðukeðjuna. Sumt plast inniheldur skaðleg aukaefni, en það á að vísu varla við um venjulegu haldapokana.

Síðan eru tekin hér dæmi um alls konar önnur óæskileg efni sem fylgja plastpokunum sem geta losnað í umhverfi okkar.

Það kemur fram í greinargerðinni sem fylgir þingsályktunartillögunni að margar þjóðir hafa hreinlega tekið þetta stóra skref og annaðhvort skattlagt plastpokana yfirdrifið eða bannað þá alfarið. Vil ég taka sem dæmi Kaliforníuríki í Bandaríkjunum sem er að gera gangskör í sínum plastpokamálum og fleiri ríki í Bandaríkjunum, og það mætti taka Bandaríkjamenn til fyrirmyndar í þessu þó að það gefi stundum ekki góða raun að taka Bandaríkjamenn til fyrirmyndar í mörgum umhverfismálum. Þarna eru þeir alla vega að stíga skrefin og takast á við vandann.

Stjórnvöld hafa, eins og hefur komið fram í ræðu minni, ákveðnar leiðir og tæki til að hafa áhrif á hegðun fólks í umhverfismálum, þ.e. boð og bönn eða hagræn stjórnartæki og upplýsingar. Í þingsályktunartillögunni felst í rauninni að það verði skoðað — ég er ekki að leggja til að það eigi að fara í beint bann á plastpokum á Íslandi frá og með 1. febrúar 2014 — í hagrænu tilliti og einnig með lífsferilsgreiningum hvort ekki sé kominn tími til að við förum að hugsa um neytendamunstrið okkar, sérstaklega í ljósi þess að við erum byrjuð að flokka við hvert eitt heimili, örugglega á 80–90% heimila á landinu. Skoðað verði hvort ekki sé kominn tími til að taka þetta skref og reyna að fá okkur sem neytendur til að hugsa aðeins öðruvísi, ekki eingöngu að skoða hvort það eigi að skattleggja plastpoka eða banna þá.

Ég lít á þetta sem frumskrefið að því að við förum einnig að skoða meira þann þátt í umhverfismálum sem snýr beint að framleiðendunum og hvernig þeir búa um vörurnar sínar. Að mínu mati þarf virkilega að skoða það, frauðplastbakkana og plastið utan um ostinn og hvernig allt er orðið brjálæðislega innpakkað. Við tækjum þetta fyrsta skref og segjum sem íslensk þjóð: Við ætlum að staldra aðeins við varðandi plastumbúðir á landinu og fylgja góðu fordæmi annarra ríkja sem hafa spornað við fótum og dregið úr notkun plastpoka.

Það er í rauninni þetta sem felst í þingsályktunartillögunni og ég óska eftir stuðningi þingheims við hana. Ég held að það ætti ekki að vera mjög pólitískt mál að fá niðurstöðu í því hvort þetta sé í rauninni gerlegt og hvernig. Við tökum þá afstöðu til þess þegar þar að kemur.