144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

274. mál
[18:03]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er eiginlega frekar meðsvar en andsvar, mig langaði til að taka undir ræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur.

Ég er þeirrar skoðunar að þó að sú atburðarás sem við ásamt fleirum settum í gang fyrir fimm árum eða svo hafi kannski ekki gengið jafn hratt fyrir sig og við vonuðumst eftir og sáum fyrir okkur þá sé farinn af stað bolti sem erfitt er að stöðva. Það er mikilvægt að hér er flutt tillaga um að halda þessu máli lifandi. Það er mikilvægt að við höldum áfram að ræða það hér í þingsal og leggja okkar af mörkum.

Þegar ég segi að bolti sé farinn af stað þá náðist einfaldlega mjög mikill árangur í þessu máli á síðasta kjörtímabili þegar horft er til þess hvernig tókst að þrengja sviðið, gera vinnuna og spurningarnar, sem svara þurfti, fókusaðri en þær voru áður. Nú liggur vilji þjóðarinnar fyrir í mjög afmörkuðum málum sem réttilega, eins og segir í tillögunni og farið er fram á, á að taka tillit til.

Ég hef í sjálfu sér ekki neinar spurningar til hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Ég vil bara taka undir með henni að þetta er góð tillaga. Það er gott að halda málinu lifandi. Það er ekki mikil vinna í gangi í hinni svokölluðu stjórnarskrárnefnd sem sett hefur verið á fót, en þó einhver og því ber að fagna. Við verðum að halda þessu máli gangandi.