152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

skattar og gjöld.

211. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Þetta varðar fyrst og síðast nokkrar leiðréttingar þar sem mistök slæddust inn í meðförum nefndarinnar á síðustu dögum ársins. Þetta varðar m.a. breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Ég ætla aðeins að renna yfir það. Þar eru t.d. breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld, m.a. um að endurgreiða 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið við innflutning eða fyrstu sölu nýs loftfars, hreyfils eða loftskrúfu sem nýtir rafmagn eða vetni sem orkugjafa. Fyrir mistök fór það inn í lög að tímabilið væri frá 1. júlí 2022 til og með 31. desember 2027. En þarna átti að standa 1. janúar 2022. Leggjum við til að það verði leiðrétt.

Sömuleiðis er þarna breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum þar sem kveðið er á um að lækka skuli skráða losun húsbíla um 40%, en þó að hámarki niður í 150 g/km. Ákvæðið sem gilti á árinu 2020 og 2021 var framlengt út árið 2022 með lögum, en því var breytt á þann veg að ef koltvísýringslosun ökutækis er skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni skuli vörugjald lagt á samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni. Breytingin hafði því miður þær afleiðingar í för með sér að í tilviki húsbíla gat munur á útsöluverði til neytenda verið töluverður eftir því hvort viðmiðið var lagt til grundvallar. Ákvæðinu var ætlað að bregðast við því ástandi þar til komist yrði að varanlegri niðurstöðu um álagningu vörugjalds á húsbíla. Til að bregðast við þessu er lagt til að ívilnunin á þessu ári taki því einnig til húsbíla þegar losun er skráð samkvæmt báðum gildum.

Þetta frumvarp varðar sömuleiðis breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, en í síðustu viku var samþykkt hér í þinginu frestun á greiðslu opinberra gjalda og breyttust þar með gjalddagar og leggjum við til að það fari hér inn og sömuleiðis breyting, að fresta gjalddögum á tryggingagjaldi og staðgreiðslu, að það myndi dreifast á fjóra nýja gjalddaga.

Þetta er, eins og áður sagði, fyrst og síðast leiðréttingarfrumvarp og ekki miklu við það að bæta. Ég vil því fyrir hönd nefndarinnar leggja til að frumvarpið gangi beint til 2. umr.