132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Móttaka ferðamanna við Kárahnjúka.

101. mál
[13:03]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Guðmundi Hallvarðssyni fyrir að taka þessa fyrirspurn upp og ráðherra fyrir svarið. Ég hvet jafnframt ráðherra til þess að iðnaðarráðuneytið fylgist með og haldi e.t.v. utan um og samræmi þær aðgerðir sem gera þarf á svæðinu til að gera það aðgengilegt fyrir ferðamenn þegar framkvæmdum lýkur.

Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að ég fór þarna í sumar og mér þótti mjög athyglisvert og ánægjulegt hversu vel var gert við ferðamenn bæði í Végarði og uppi á stíflusvæðinu sjálfu til að fylgjast með þeim miklu framkvæmdum sem þarna eiga sér stað og fagna því sem hér kom fram að áframhald verði í Végarði í allt að fimm ár eins og hæstv. ráðherra sagði til þess að fólk geti komið og séð þessar miklu framkvæmdir sem ég studdi og er hlynntur og vona að verði þannig í framtíðinni að þær veiti landi og þjóð birtu og yl og meiri tekjur í kassann ef svo má að orði komast. Ég tel fulla ástæðu til að hvetja til þess að vel verði að þessu staðið (Forseti hringir.) sem framtíðarmúsík fyrir ferðamenn og að hægt verði að fara og skoða það sem þarna ber fyrir augu.