149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég vaknaði í morgun las ég grein eftir hv. þingmann þar sem hann talaði um áhyggjur sínar af því að báknið væri að vaxa, að útgjöld til allra málaflokka yxu stjórnlaust. Hann hafði af því miklar áhyggjur og sérstaklega fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Reyndar vildi svo vel til að ég svaraði eiginlega öllum þeim áhyggjum hv. þingmanns í ræðu í gær. En svo mætir maður hingað í þingið til vinnu sinnar og þá kemur sami hv. þingmaður og segir: Útgjöldin vaxa ekki nægilega mikið. Hvernig stendur á því að menn skerða bótagreiðslur þannig að hafðar séu af fólki auknar vaxtagreiðslur? Þetta er einn og sami maðurinn sem er kominn með afar ólíka sýn á útgjöld ríkissjóðs á einum og sama morgninum, fyrir hádegi.

Þegar kemur að húsnæðisbótastuðningi, vaxtagreiðslum, húsnæðisbótum til þeirra sem eru í leiguhúsnæði, stofnstuðningi ríkisins við uppbyggingu félagslegs húsnæðis, þegar við horfum til séreignarsparnaðarleiðarinnar sem veitir skattafslátt, horfum til aðgerða stjórnvalda um að fella niður helminginn af stimpilgjaldi vegna fyrstu íbúðarkaupa, erum við alltaf að tala um aðgerðir ríkisstjórnar og stjórnvalda, oft í samvinnu við sveitarfélög og stéttarfélög, til þess að létta fólki þröskuldinn inn á húsnæðismarkaðinn eða til að halda húsnæði sínu þar og byggja þak yfir höfuð fjölskyldunnar. Þetta eru margþættar aðgerðir. Það verður engin ein þeirra slitin úr samhengi við aðrar. Það er allt rétt sem hér er sagt, að vaxtabótakerfið hafi verið að gefa eftir. En við höfum á sama tíma spýtt í annars staðar. Þegar þetta er allt lagt saman sjá menn að húsnæðisstuðningur í fjárlagafrumvarpinu fer vaxandi milli ára. Eftir stendur hins vegar í raun og veru umræðan um það hvort við eigum að hafa vaxtabótakerfi eins og það sem við erum með. Er skynsamlegt að hvetja fólk til að taka hærri lán og koma síðan eftir á og greiða niður vextina? Gæti verið að við ættum að eyða meiri kröftum í að halda vöxtum lágum en í að hafa áhyggjur af því hversu háar vaxtabæturnar eru (Forseti hringir.) á hverju ári, sem er eins konar afleiðing af því að fólk situr uppi með of háan vaxtakostnað? Ég segi: Setjum allan kraftinn í umræðu um stöðugleika, umhverfi fyrir lægri vexti í landinu, vegna þess að það er engin aðgerð sem gerir meira fyrir fjölskyldur sem (Forseti hringir.) taka á sig langtímaskuldbindingu en sú sem tryggir lægri vexti húsnæðislána.