151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

þingsköp Alþingis.

8. mál
[11:32]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði haldið að það væri einmitt af hinu góða að opna þann möguleika að menn geti verið heima, að sjálfsögðu af heilsufars- og sóttvarnaástæðum ef þær eru til staðar, eins og þær eru við núverandi aðstæður, eða vegna mögulegra veikinda, að það sé af hinu góða að í stað þess að harka af sér og mæta í vinnuna geti menn tekið þátt í nefndarfundi um fjarfundabúnað að heiman. Það er akkúrat það sem við viljum, sérstaklega við núverandi aðstæður og er hvatt til þess, og hefur verið gert í upplýsingamiðlun undanfarið, að hafi menn einhvern minnsta grun um að þeir séu veikir, annaðhvort vegna þess að þeir finna til vægra einkenna sjálfir eða vegna þess að einhver í kringum þá er mögulega veikur, mæti þeir ekki í vinnuna. Á meðan þessi vafi er uppi getur t.d. verið ágætt fyrir viðkomandi að eiga þess kost að sinna sínum störfum í gegnum fjarfundabúnað.

En að sjálfsögðu er það rétt að það er viðkomandi þingmanns, varamanns hans eða viðkomandi þingflokks að leysa úr því ef sú staða kemur upp. Eigum við ekki að treysta þeim aðilum til að velja sameiginlega þann kost sem er bestur? Þ.e. að annaðhvort mæti varamaðurinn eða að þingflokkurinn tilnefni mann í staðinn, ef það er í boði, eða ef menn telja best að viðkomandi þingmaður sinni skyldum sínum áfram í gegnum fjarfundabúnað geri hann það. Hér er gengið út frá því að það sé ekki endilega okkar að hafa vit fyrir mönnum í þessum efnum.

Ef hv. þingmaður er hins vegar andvígur því að þessi heimild sé þarna til staðar, að eigin veikindi eða aðstandenda séu höfð með sem andlag mögulegrar heimildar til að sækja fjarfund, er sjálfsagt að nefndin skoði það sjónarmið. En ég myndi reikna með að hv. þingmaður væri í talsverðum minni hluta með það sjónarmið.