143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:14]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Fyrst um fjölgunina, þ.e. skýrsluna sem við fengum á dögunum um fjölgun í ráðuneytum. Ég leit aðeins í hana um daginn en mundi ekki nákvæmlega hvaða stofnanir sem voru meðal annars fluttar undir umhverfisráðuneytið voru annars staðar enda voru lægri gjöld á umhverfisráðuneytinu en höfðu verið áður. Þetta eru undirstofnanir sem voru fluttar til ráðuneytisins, Vatnamælingar, Skógrækt ríkisins og fleiri, þannig að þær voru sem sagt settar þar undir en höfðu eðli málsins samkvæmt verið annars staðar. Það skýrir fjölgun starfsmannanna þar. Það var ekki bein fjölgun í ráðuneytinu sem slíku þannig að það að tengja þetta við að fækkað hafi á spítölum en fjölgað í einhverju ráðuneyti er kannski hæpið.

Við erum að velta fyrir okkur meðal annars útgjaldaaukningu hér upp á nærri 50 milljónir við fjölgun ráðherra og aðstoðarmanna, er það ekki? Það er ágætt að hafa umræðu um það. Við innleiddum það að fækka ráðuneytum, fækka ráðherrum. Því er verið að breyta aftur.

Ég tek undir þetta með hlutdeild sjúklinga, það ætti ævinlega að vera markmið okkar hvenær og hvar sem við stöndum í pólitík á hverjum tíma að minnka greiðslur fólks eins og við mögulega getum varðandi þátttöku í kostnaði. Hins vegar hef ég ævinlega líka sagt að mér finnst að það megi tekjutengja eins og svo margt annað (Forseti hringir.) eins og gert var í vor með sjúkratryggingalögunum.