152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

um fundarstjórn.

[10:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Við fengum fréttir af því um klukkan fimm í gær, bara rétt eftir að kosið hafði verið í nefndir, að fjárlagafrumvarpið hefði verið sent til umsagnar, til umsagnaraðila. Ég vissi ekki einu sinni að fjárlaganefnd hefði tekið til starfa. Ég er í nefndinni og þar hefur ekki verið boðað til neinna funda eða neitt slíkt. Mér finnst því mjög áhugavert að umsagnaraðilar fái umsagnarbeiðnir um fjárlagafrumvarpið áður en nefndin getur í rauninni komið saman og ákveðið a.m.k. umsagnartíma, því að það er nú einu sinni nefndin sem ákveður hann. Af afspurn virðist mér það hins vegar bara hafa verið ákveðið í samráði við formann nefndarinnar. Ég kalla því eftir að hv. formaður fjárlaganefndar, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, komi hingað upp og útskýri hvað gerðist eiginlega, hvernig þetta getur flokkast sem annað en gerræðisleg vinnubrögð stjórnar strax í upphafi þings.