151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[19:20]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að spurningu þingmannsins sé auðsvarað bara með því að benda á dæmi um hið gagnstæða frá síðustu þremur árum. Núverandi ríkisstjórn hefur hækkað kolefnisgjald tvisvar. Sú hækkun er samt lægri en sú hækkun sem ráðgerð var í tíð fyrri ríkisstjórnar. Eitt af fyrstu verkum núverandi ríkisstjórnar var að hætta við að afnema afslætti til bílaleigna, sem skiptir gríðarlega miklu máli að koma böndum yfir vegna þess að mjög mikið af þeim bílum sem almenningur kaupir notaða eru fyrrverandi bílaleigubílar. Þess vegna skiptir máli að ná orkuskiptum hjá bílaleigunum til þess að leigumarkaðurinn verði betri eftir nokkur ár. Allir hvatar til þess voru teknir út. Haldið var áfram að leyfa bílaleigum að fá ódýrari bíla til þess að hluti af bisnessmódelinu hjá þeim gæti verið að kaupa bíla á afslætti og selja þá síðan og græða aðeins á því ofan á það að leigja þá í millitíðinni. Og síðan leggur stjórnarmeirihlutinn náttúrlega til óþekkta upphæð í auknar ívilnanir til mengandi bíla.

Ég giska á að þetta gæti hlaupið á 720 milljónum á næsta ári, algjörlega út í loftið. 600 milljónir er upphæðin sem var látin í loftslagsaðgerðir til að bregðast við Covid, fjárfestingarátak í þágu loftslagsins, núna í vor. Þannig að greiðsluviljinn þegar kemur að mengun og hagsmunaaðilum, sem standa sumir stjórnarflokkunum nærri, er miklu meiri en þegar kemur að því að leysa framtíðaráskoranir komandi kynslóða.