140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ályktun Íslenskrar málnefndar 2011 um stöðu tungunnar.

[13:49]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Vandi íslenskunnar er ein birtingarmynd þess meginvanda íslenska skólakerfisins að það er gjá á milli þessa kerfis og þeirra nemenda sem það á að þjóna. Sú gjá birtist með skýrustum hætti í því að allt að 30% nemenda í framhaldsskólum hverfa frá námi án þess að ljúka því. Vandi íslenskunnar birtist meðal annars í því að stór hluti nemenda, sérstaklega drengir, lesa ekki bækur sér til ánægju, væntanlega af því að þeir hafa ekki áhuga á því. Hvernig eigum við að bregðast við því? Eigum við að fjölga tímum í íslensku? Gera íslenskuna að keppnisgrein með verðlaunafhendingu? Útvega öllum nemendum spjaldtölvur svo þeir þurfi ekki að handfjatla gamaldags innbundnar bækur? Beita boðum, bönnum, formælingum eða jafnvel hótunum? Eða eigum við kannski að tala við nemendurna sjálfa, rannsaka með skipulegum hætti hvað veldur áhugaleysi þeirra á bóklestri? Hvað veldur námsleiðanum? Hvað veldur því að þeir hverfa á brott frá námi? Eru kennsluaðferðirnar, námsgögnin og uppbygging námsins nægilega miðuð við þarfir nemenda á 21. öldinni, þessari öld margmiðlunar, rafrænna boðskipta, sprengingar í framboði afþreyingar og síaukinna krafna samfélagsins um endurmenntun og framþróun færni og þekkingar?

Vísað er í mikilvægi rannsókna í þessari ályktun Íslenskrar málnefndar. Þar segir að rannsaka þurfi hvað geri börn og unglinga að áhugasömum lesendum og virkja þurfi lestrarhesta til jafningjafræðslu. Við þurfum jafnframt og jafnvel enn frekar að rannsaka hvað veldur því að nær fjórðungur íslenskra barna í 5.–7. bekk les aldrei bækur sér til skemmtunar. Sami vandi er út um allt í okkar opinbera kerfi, hann er ekki einskorðaður við skólakerfið. Okkur hættir til að hafa vit fyrir fólki án þess að hafa það sjálft með í ráðum. Í skólakerfi þar sem brottfall er með því hæsta sem þekkist í Evrópu, þar sem íslenska og bóklestur eiga undir högg að sækja, er algjört lykilatriði að við leggjum okkur fram um að greina raunverulegar orsakir vandans, skilja afstöðu nemendanna og umfram allt að hafa fulltrúa þeirra við borðið þegar við tökum ákvarðanir um aðgerðir til að snúa þróuninni til betri vegar.